Halla Bára og Gunnar
Gómsætar múffur með Nutella og bláberjum
05. október 2016

Gómsætar múffur með Nutella og bláberjum

Þeir sem voru heppnir gátu tínt bláber í lok sumars! Ekki við, ekki eitt einasta ber í grenndinni. En þau má kaupa og þar sem bláberjatíð er nýlokið þarf að gera eitthvað úr blessuðum berjunum. Þess vegna er ekki úr vegi að koma hér með eina góða uppskrift af múffum sem sannarlega er hægt að mæla með. Múffur með Nutella og bláberjum! Já, rétt. Nutella er ansi gott og með ansi mörgu. Ég setti bláberin aðeins í múffurnar fyrir okkur fullorðna fólkið en sleppti þeim hjá stelpunum. Þær voru ekki alveg eins spenntar fyrir þeim.

Múffur með Nutella og bláberjum

 

140 g mjúkt smjör

1/2 b sykur

3 egg

1/2 tsk vanilludropar

1 3/4 b hveiti

1/4 tsk salt

2 tsk lyftiduft

Nutella, um 1/3 bolli

Fersk eða frosin bláber

 

Hitið ofn í 160 gráður. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið eggjum saman við og hrærið vel, best að setja eitt egg í einu og hræra á milli. Þá koma vanilludroparnir og hrært skal vel saman. Þurrefnin eru næst og hrærið í kekkjalausa blöndu. Athugið að Nutella fer ekki saman við deigið!

Fyllið múffuform að 3/4 hlutum. Setjið kúfaða teskeið af Nutella ofan á hverja köku. Takið tannstöngul og hrærið varlega ofan í deigið, byrjið neðst og hrærið upp þannig að deig og Nutella blandist aðeins saman. Með þessu skal nást fallegt marmarakökumynstur í hverja köku. Ef þið viljið bláber í múffurnar, leggið þá nokkur ofan á hverja köku og þrýstið þeim ofan í deigið. 

Bakið í 20-25 mínútur en fylgist vel með og stingið prjóni í miðjuna á einni til að sjá hvort hann komi hreinn út. Þá eru þær tilbúnar. Gætið að því að baka þær ekki of mikið, þá verða þær þurrar. Á þessar kökur þarf ekkert krem þar sem Nutella gegnir líka hlutverki kremsins og þær eru mjúkar og "djúsí".

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!