Halla Bára og Gunnar
Góður eftirréttur í eftirréttasafnið
02. júlí 2015

Góður eftirréttur í eftirréttasafnið

Þegar við sáum crepes með ricotta á eftirréttaseðli á mjög góðum veitingastað í Locorotondo í Puglia þá urðum við að prófa. Sá réttur sveik okkur ekki og heldur ekki panna cotta með berjum sem einnig kom á borðið. Það þarf vart að taka það fram en vitaskuld kláraðist hvort tveggja. En ricotta-fyllingin í pönnukökunum vakti athygli okkar því hún kom inn með skemmtilega tilbreytingu í eftirréttasafnið okkar.

Pönnukökurnar sjálfar mega bara vera hefðbundnar pönnukökur eins og þið bakið en hér að neðan er uppskrift að fyllingunni sem á að fara inn í þær til að útbúa þennan rétt heima. Það skyldi aldrei gleyma réttinum sem á eftir kemur, sjálfum eftirréttinum.

Athugið að ef ekki er hægt að nálgast ricottaost þá má nota hreina kotasælu. Láta renna úr henni mesta vökvann (í gegnum kaffipoka eða á nokkrum edhúsrúllubréfum) og stappa hana eða mauka örlítið í matvinnsluvél.

Sætur ricotta með súkkulaði og kanil

 

150-200 g ricottaostur eða hrein kotasæla

börkur af hálfri sítrónu eða lime

2 tsk hunang

½ tsk kanill

2-3 msk súkkulaðispænir

 

Hrærið allt hráefnið saman í skál. Látið standa aðeins í ísskáp. Bakið pönnukökur og náið úr þeim hitanum. Smyrjið blöndunni á pönnukökurnar, um matskeið á hverja pönnuköku. Dreifið úr blöndunni, rúllið upp og skerið hverja köku í tvennt. Stráið smá kanil og súkkulaðispæni yfir og berið fram. Skemmir ekki að bera fram þeyttan rjóma með. 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!