Halla Bára og Gunnar
Góð máltíð sem samverustund
29. október 2013

Góð máltíð sem samverustund

Umsjón Halla Bára Gestsdóttir og Gunnar Sverrisson

www.homeanddelicious.com

 

Nú er að hefjast sá tími að fólk kemur meira saman og nýtur þess að eiga ljúfa stund yfir mat og við huggulegheit. Hlutirnir þurfa ekki að vera formlegir við slík tækifæri, samveran eins og sér er nóg en góður matur spillir aldrei fyrir. Hér er hugmynd að seðjandi kjúklingi með perusalati og kartöflumús. Virkilega ljúfur réttur sem rennur vel niður alla daga vikunnar. Auðvelt að gera, gott að njóta.

 

Fylltur kjúklingur

-með kotasælu, rjómaosti og kryddjurtum

 

Kjúklingur bregst ekki í boðið eða sem staðgóða fjölskyldumáltíð. Hér er hann fylltur með mjúkri fyllingu sem flæðir um hann og skilur eftir sig gómsæta sósu.

 

1 heill kjúklingur, hægt að nota bita með beini og skinni

1 sítróna, skorin í tvennt

2 dl kotasæla

2 dl rjómaostur

hnefi fersk basilíka

hnefi fersk mynta, líka gott að nota steinselju

1 dl ristaðar furuhnetur

salt og pipar

1 kjúklingateningur

 

Hitið ofn í 220 gráður. Hreinsið kjúklinginn, stingið sítrónu inn í hann, gerið gat ofarlega á húðina á hvorri bringu fyrir sig. Farið með fingur undir húðina svo myndist hol til að stinga fyllingunni ofan í.

Setjið kotasælu, rjómaost, kryddjurtir og furuhnetur í matvinnsluvél, saltið aðeins og piprið og maukið saman. Komið fyllingunni fyrir undir húðinni á kjúklingnum, ekki spara hana, og smyrjið afgangnum utan á kjúklinginn. Saltið þá og piprið eftir smekk.

Leggið kjúklinginn í ofnskúffu eða í pott með loki, setjið um 2 dl af vatni út í og myljið teninginn í vatnið.

Stingið í ofninn en lækkið hitann um leið niður í 200 gráður. Eldið í 80–90 mínútur. Kjúklingurinn er tilbúinn þegar kjötið nánast dettur af beinunum og í skúffunni verður til góð sósa til að hafa með.

Berið fram með perusalatinu og kartöflustöppu.

 

Kartöflustappa

Hver hefur sína hentisemi við að útbúa kartöflustöppu. Til að flýta smá fyrir er gott að afhýða kartöflurnar og skera þær í bita. Láta þær sjóða þar til þær eru mjúkar, hella vatninu af, setja þá smjörklípu strax yfir kartöflurnar í pottinum og láta það bráðna. Hella rjóma eða matvinnslurjóma saman við, smakka til með salti, pipar og jafnvel smá múskati. Stappa vel og bera strax fram.

 

Salat

-með steiktum perum og gráðaosti

 

Salat sem gengur með ýmsum réttum – sé það einu sinni reynt byggir maður á hugmyndinni og notar hana á ýmsa vegu.

 

2-3 perur, eftir stærð, afhýddar og skornar í þunnar sneiðar

25 g smjör

2 msk furuhnetur, ristaðar

2 msk hunang

¼ tsk chiliflögur

200 g salat að eigin vali, klettasalat hentar vel

1 msk sítrónusafi

2 msk ólífuolía

200 g gráðaostur

salt og pipar

 

Mýkið perusneiðar í smjöri á pönnu í 5 mínútur. Bætið furuhnetum á pönnuna, síðan hunangi og chiliflögum. Mýkið saman þar til hunangið er bráðið.

Leggið salatið á disk. Dreypið olíu og sítrónusafa yfir, saltið og piprið ef ykkur finnst það þurfa. Leggið perurnar á salatið og hellið hunangskryddblöndunni af pönnunni yfir. Myljið ostinn yfir allt saman. Salatið er bæði gott með perunum heitum sem köldum.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!