Halla Bára og Gunnar
Gæðapylsur
25. ágúst 2016

Gæðapylsur

Það að grilla er athöfn sem á við allt árið. Líklega eru margir sem munu grilla um helgina og hvernig er þá að grilla eitthvað aðeins annað en venjulega, fara aðrar leiðir? Á þessum árstíma er komin sú tilfinning í mann að púsla saman þægindum (comfy food), gæðafæði og grilli. Hér er okkar hugmynd að þeirri samsetningu; pylsur, kartöflustappa og baunir! Ok, viðurkenni að þetta finnst mér alltaf klassík (SS, stappa úr pakka og Heinz) en við erum að mæla með hinu afbrigðinu. Gæðapylsur, heimalagaðar eða jafnvel frá KjötPól, heimalöguð stappa með smá sinnepi og heimalöguð tómatsósa með smjörbaunum. Algjör lúxusmáltíð og fyrir þá sem kjósa bjór eða léttvín með þá svíkur það ekki. Hér þarf ekki uppskrift. Bara segja frá því sem fer vel saman. 

Pylsur: Timíanpylsur, chorizo-pylsur, ítalskar morgunverðarpylsur og svo má lengi telja. Kaupa blöndu af pylsum, grilla þær allar og bera fram. Smakka á öllu.

Kartöflustappa: Hér stöppuðum við ekki kartöflurnar alveg niður heldur héldum stöppunni grófri. Tókum soðnar kartöflur og settum slatta af smjöri yfir þær sem við létum bráðna. Helltum yfir smá matreiðslurjóma og létum suðuna koma upp. Leyfðum kartöflunum aðeins að malla á mjög vægum hita í rjómasmjörblöndunni og mörðum þær svo niður. Þá settum við salt, pipar og múskat og fyrir þá sem vilja má alveg setja rifinn parmesanost út í. Þá er gott að bragðbæta með sinnepi að eigin vali eða a.m.k. að bera gott sinnep fram með matunum. 

Tómatsósa með smjörbaunum: Heimalöguð tómatsósa er eitthvað sem oft er gert er á heimilinu okkar. Við notum alltaf rauðlauk sem látinn er malla í góðri ólífuolíu, það má setja hvítlauk með. Setjum smá skvettu af ediki yfir og látum það gufa upp, eða smá vín ef er til afgangur í flösku. Þá kemur dós af góðum niðursoðnum tómötum. Látið malla sem lengst en nokkrar mínútur duga fyrir fólk á hraðferð. Smakka til með salti og pipar, má setja chillípipar. Setjum alltaf smá sykur í tómatsósu, skiptir máli. Þá koma baunirnar og það þarf að láta renna vel af þeim. Rifin basilíka er góð út í þetta síðustu mínúturnar eða þann tíma sem baunirnar þurfa til að hitna vel í gegn. Auðvitað má nota aðrar baunir en smjörbaunir. 

 

Verði ykkur að góðu - þið verðið ekki svikin af þessari blöndu! 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!