Halla Bára og Gunnar
Gæðapasta með piparostasósu, beikoni og grænum baunum
30. apríl 2015

Gæðapasta með piparostasósu, beikoni og grænum baunum

Þessi pastaréttur var eldaður um páskana hjá okkur – ferskar pastalengjur með piparostasósu, beikoni og grænum baunum. Virkilega gott og góður fjölskyldumatur. Það þarf alls ekki að gera pasta sjálfur til að rétturinn virki sem skyldi. Þvert á móti er hægt að nota hvaða pasta sem er í þetta, en tagliatelle myndi henta vel. Þá mælum við líka með því að kaupa ferskt pasta til að nota sem og kaupa ferskar lasagnaplötur og skera þær í lengjur. Svona til að auka á fjölbreytnina í pastaréttunum almennt.

En þessi samsetning er eitthvað sem hægt er að mæla með, piparostur og beikon klikkar ekki en grænu baunirnar (athugið ekki niðursoðnar heldur frosnar) gera algjörlega útslagið í réttinum. Verði ykkur að góðu!

Gæðapasta með piparostasósu, beikoni og grænum baunum

Hlutföllin í uppskriftinni eru miðuð við fjóra

 

Pasta að eigin vali, soðið al dente

1 dl pastasoð


Piparostur

2-3 dl rjómi


10-12 beikonsneiðar, eldaðar og skornar í bita

3 dl grænar baunir, frosnar úr poka, búið að þýða


Rifinn parmesanostur


Skerið ostinn aðeins niður og bræðið hann í rjómanum á miðlungshita svo úr verði slétt og fín sósa. Eldið beikonið í ofni eða á pönnu, skerið í pena bita. Þýðið baunirnar.

Sjóðið pastað sem þið kjósið að nota, al dente, takið einn desilítra af pastasoðinu og geymið. Látið renna af pastanu en alls ekki láta það þorna, þá missir pastað mýktina og sósan leikur ekki eins vel um það.

Hellið pastanu í skál, fat eða pott. Hellið sósunni yfir það, hrærið hana saman við. Ef hún er ekki nægilega mikil eða þunn þá er gott að hella pastasoðinu yfir og hræra vel. (Við gerum það að vísu nánast alltaf með pastasoðið, og með mjög marga rétti, til að ná góðri áferð á pastasósur). Blandið beikoni og baunum saman við.

Berið strax fram með parmesanosti… og svona til að kóróna réttinn má hafa með honum gott brauð eða hvítlauksbrauð.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!