Halla Bára og Gunnar
Frönsk pizza og osta fondue
13. desember 2018

Frönsk pizza og osta fondue

Frönsk pizza og osta fondue

Pizza fyrir allar árstíðir en samt smá meira vetrar að mínu mati. Frönsk pizza er eins og sniðin fyrir létt matarboð, partý, happy hour. Ég fékk franska pizzu í fyrsta skipti í Berlín fyrir nokkru síðan og fór strax í að kanna uppskriftir og hvaðan hún kæmi í raun. Pissaladière er ættuð frá suður Frakklandi. Botninn er einhvern vegin mitt á milli þess að vera pizzabotn og smjördeig og hún er yfirleitt með mjúkum eða sultuðum lauk, svörtum ólífum, ansjósum og góðum ostum. Ég kalla þetta ekki uppskrift heldur miklu frekar hugmynd að skemmtilegum og fljótlegum rétti sem flott er að bera fram. Á myndinni er líka osta fondue og tveir bakaðir ostar. Þetta er allt fljótgert en huggulegt í boð og ostar bregðast aldrei.  

Frönsk pizza

­Pizzadeig, best að kaupa þunnt í rúllu, eða smjördeig, sömuleiðis best að kaupa í rúllu

Ólífuolía

Sýrður rjómi frá Gott í matinn

Rifinn ostur frá Gott í matinn

Laukur, fínt skorinn í sneiðar

Beikon, smátt skorið og steikt

Svartar ólífur

Óðals Ísbúi eða Óðals Jarl

 

Deig er valið eftir hentugleika en mér finnst smjördeig í rúllu (þetta eins og pizzudeigið) næst því sem það á að vera. Smyrjið ofnplötu eða skúffu (má setja smjörpappír og olíu á hann) með ólífuolíu og takið deigið í sundur. Dreypið olíu sömuleiðis ofan á deigið.

Hrærið saman dós af sýrðum rjóma og hálfan poka af rifnum osti. Dreifið úr blöndunni yfir botninn. Hér má líka eingöngu nota sýrðan rjóma og sleppa ostinum. Dreifið úr smátt söxuðu beikoni yfir blönduna.

Mýkið fínt saxaðan lauk í olíu á pönnu þar til hann fær á sig glæran tón. Dreifið úr lauknum á botninn. Þá ólífum. Rífið gróft Óðals Ísbúa eða Óðals Jarli og stráið yfir, það á ekki að vera mikill ostur yfir pizzuna. Osturinn er bragðsterkur og hann má ekki vera yfirþyrmandi.

Bakið við 180 gráður þar til botninn er bakaður og osturinn bráðinn. Takið úr ofninum og skerið í kassa. Berið fram. Hentar við ýmis tilefni.

 

Osta fondue

2 1/2 dl hvítvín

1 msk. smjör

1 msk. hveiti

2 dl rifinn Óðals Ísbúi

2 dl rifinn Óðals Tindur

2 dl rifinn Óðals Cheddar

 

Hitið vín að suðu. Bræðið smjör í potti við vægan hita, hrærið hveiti saman við og látið malla í nokkrar mínútur á meðan þið hrærið í. Hellið þá víninu í smá skömmtum í einu út í hveitiblönduna og hrærið rösklega í þar til úr verður áferðarfallegur jafningur. Þá fer allur osturinn saman við. Hrærið hann þar til hann er bráðinn saman við jafninginn. Berið fram á hita, litlum potti sem stendur yfir kerti. Best með góðu brauði, súrum gúrkum, ólífum, sultu fyrir þá sem það vilja.

 

Bakaðir ostar

Klassík á okkar heimili er að skella Dala Gullosti í ofninn án þess að eiga nokkuð við hann. Eingöngu taka límmiðann af álpappírnum. Það er ekki vitlaust að stinga nokkrum sinnum ofan í toppinn á honum með hnífsoddi en annars er pappírinn bara hafður opinn og osturinn settur í ofnfasta skál. Hann er bakaður þar til hann er orðinn vel heitur og flæðandi.

Annað sem má gera er að hella yfir ostinn hunangi sem er með einhverju gúmmelaði saman við. Á myndinni er hunang með heslihnetum frá Nicolas Vahé. Þá er osturinn settur í ofn.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!