Halla Bára og Gunnar
Fljótleg máltíð fyrir boðið - innblástur frá Mexíkó
09. maí 2014

Fljótleg máltíð fyrir boðið - innblástur frá MexíkóKjúklingalasagna

Lasagna er það sem er lagskipt og þessi „sagna” er sett saman úr lögum af mexíkósku góðgæti.

1 grillaður kjúklingur
2-3 tsk mexíkóskt krydd, kryddblanda í poka, t.d. fajhita seasoning mix
1 dós refried beans, maukaðar baunir
1 dl vatn
1 tsk salt
1 tsk cúmín
2-3 msk jalapeno, smátt saxaður, má sleppa
1 krukka mild salsa sósa
1 krukka ostasósa
1 poki rifinn ostur
6-8 tortilla-kökur
2 dl sýrður rjómi
100 g rjómaostur
½ poki rifinn ostur, sem fer yfir að lokum

Hitið ofn í 180 gráður. Skerið kjötið niður af grillaða kjúklingnum í frekar smáa bita. Hrærið saman baunamauk, cúmín og vatn. Smakkið til með salti. Setjið jalapeno út í.
Raðið tortilla-kökum í botninn á eldföstu móti þannig að þær þeki botninn. Smyrjið baunamauki yfir kökurnar, stráið kjúklingakjöti yfir, þá kryddblöndu, salsasósu og dreifið osti yfir. Endurtakið nema í stað salsasósu fer ostasósa yfir. Ljúkið ferlinu með því að hafa tortilla-kökur efst.
Hrærið saman sýrðan rjóma og rjómaost í potti á lágum hita. Hellið yfir efstu tortilla-kökuna. Stráið osti yfir að lokum. Bakið í ofni í 30 mínútur. Berið fram heitt.Matarmikil ídýfa með nautahakki og osti

Þessi klárast fljótt í boðum. Hún er þó ekki síðri sem aðalréttur vafin í tortillur eða sett í skeljar.

500 g nautahakk
2-3 msk mexíkósk kryddblanda í poka, t.d. burrito seasoning mix
blaðlaukur, smátt skorinn
½ græn paprika, smátt skorin
½ rauð paprika, smátt skorin
1 rautt chillí, ferskt, smátt skorið
400 g tómatsósa, úr dós
400 g ostasósa, úr dós eða krukku
2 dl vatn
1 msk Worcester-sósa, má sleppa
200 g rifinn ostur
½-1 tsk cayenne-pipar
½ tsk paprikukrydd
100 g rifinn ostur, yfir að lokum

Hitið ofn í 200 gráður. Brúnið nautahakk og smakkið til með kryddblöndu. Þegar það er næstum tilbúið blandið þá saman við lauk, papriku og chillí og mýkið aðeins.
Hrærið tómatsósu saman við, vatni, ostasósu og Worcester-sósu. Smakkið til með cayennepipar og parikukryddi. Hrærið rifinn ost saman við.
Hellið blöndunni í eldfast mót og stráið rifnum osti yfir. Setjið í ofn þar til osturinn er bráðinn. Berið fram með tortillum sem skornar eru í 8 bita eða nachos-flögum.Snittur með þistilhjartamauki

Einhvern veginn lendir þessi uppskrift alltaf á veisluborði þar sem mexíkóskur matur er í boði því hún passar þar sérlega vel. Ræturnar má þó rekja annað.

2 bagettur, sneiddar
ólífuolía
1 dós niðursoðin þistilhjörtu
3 msk majones
1 dl parmesanostur, fínrifinn
2 hvítlauksrif
½ tsk salt
100 g ostur, rifinn

Hitið ofn í 225 gráður. Penslið brauðsneiðar á báðum hliðum með olíu. Brúnið brauðið undir heitu grilli í ofni á báðum hliðum.
Setjið þistilhjörtu, majónes, parmesanost, hvítlauksrif, ost og salt í matvinnsluvél og maukið vel.
Skiptið maukinu niður á brauðsneiðarnar. Bakið ofarlega í ofni í 5-10 mínútur.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!