Halla Bára og Gunnar
Bruschetta með hráskinku, klettasalati og rjómaostasósu
08. janúar 2016

Bruschetta með hráskinku, klettasalati og rjómaostasósu

Gleðilegt ár kæru lesendur á Gott í  matinn! Fyrsta uppskrift ársins hér á blogginu frá okkur, er sú uppskrift sem við teljum að sé hjá okkur fjölskyldunni sú vinsælasta árið 2015. Sú uppskrift sem við sammælumst um að sé ljúffeng. Sú uppskrift sem við njótum þess öll að borða. Sú uppskrift sem við grípum oft til þegar okkur langar í eitthvað rosa gott en einstaklega einfalt.

Og uppskriftin er… bruschetta með hráskinku, klettasalati og rjómaostasósu!

Upphaflega er þessi uppskrift frá þeim yndislega veitingastað sem var og hét La Prima Vera. Þar fengum við hjónin okkur oft bruschettu sem þessa og þá með geitaostasósu. Þegar staðnum var lokað var ekkert annað að gera en að búa sér til þetta sjálfur og það höfum við sannarlega gert, ótal, ótal sinnum. Meira að segja Kaja okkar, sem ekki neinn sérlegur matgæðingur, elskar þennan rétt og fékk hann á aðfangadagskvöld. Algjört uppáhald hjá henni sem og fleiri krökkum sem hafa smakkað.

Uppskriftin er sáraeinföld:

–Súrdeigsbrauð, helst af öllu og þá úr Sandholti – ekki nema þú eigir þér eitthvað annað uppáhaldsbrauð sem hentar í bruschettu eða crostini – hér er hægt að nota góða bagettu og bera réttinn einnig fram á litlum bagettusneiðum

–Hvítlauksrif og gæða ólífuolía

–Hráskinka

–Klettasalat, ólífuolía, sítrónusafi, salt og pipar

–Rjómaostur, rjómi, salt og pipar, kraftur en má sleppa

–Rifinn parmesanostur

 

Skerið brauðið í sneiðar og grillið á grillpönnu eða í ofni, alls ekki þannig að brauðið verði hart, nokkrar mínútur. Skerið hvítlauksrif í tvennt og nuddið sárið niður í brauðsneiðarnar. Dreypið olíu yfir brauðið án þess að spara hana.

Dreypið olíu yfir salatið og kreistið safa úr hálfri sítrónu yfir, saltið aðeins og piprið.

Setjið rjómaost í pott (lítil dós af osti hentar fjórum, 125 g), hellið pela af rjóma (2 ½ dl) saman við og bræðið. Smakkið til með salti og pipar og eins er gott að dreifa smávegis af góðum krafti yfir (kjúklinga- eða grænmetiskrafti í duftformi, um ½ tsk) og hræra þar til mjúkt og áferðarfallegt. Fyrir þá sem vilja skorum við á ykkur að prófa að nota mjúkan geitaost og þá í sama magni.

 

Nú raðið þið bruschettunni saman:

Brauð, salat, hráskinka, sósa og rifinn parmesanostur að lokum. Hráskinkuna er fallegast að krumpa eða rúlla aðeins saman á brauðsneiðinni. Dreypa svo sósu yfir í litlu magni en bara meira fram með. Athugið að þetta er rosa flottur réttur sem forréttur, sem smáréttur en einnig afbragð sem aðalréttur með góðu léttvíni. Verði ykkur öllum að góðu!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!