Halla Bára og Gunnar
Bruschetta með fetaostakremi, salami og hægelduðum tómötum
16. júní 2015

Bruschetta með fetaostakremi, salami og hægelduðum tómötum

Bruschetta með fetaostakremi, salami og hægelduðum tómötum er ein af þremur uppskriftum sem eru í nýjum sjónvarpsauglýsingum fyrir MS og sem við settum saman. Við gerum mikið af bruschettum heima hjá okkur með ýmsu meðlæti enda góður, léttur og ítalskur matur. Það skiptir miklu máli í bruschettu að vera með gott brauð og ekta súrdeigsbrauð er mjög gott en það má líka fara þá leið að nota bagettu. Í þessari uppskrift er það fetaostur sem fær að njóta sín í hrærðu kremi undir ítölsku salami og hægelduðum tómötum.

Bruschetta með fetaostakremi, salami og hægelduðum tómötum

Súrdeigsbrauð eða annað gott brauð

Ólífuolía, gæðaolía

Hálft hvítlauksrif

 

Tómatar:

Kirsuberjatómatar – skornir í tvennt

Ólífuolía

Salt og pipar

Örlítill sykur að eigin vali

Ferskar kryddjurtir að eigin vali – fallegt að nota ferskt óreganó

 

Fetaostakrem:

Fetaostur – í krukku með tómötum og ólífum

Sítrónubörkur og safi – úr hálfri sítrónu

Hálft hvítlauksrif

Ólífuolía

 

Klettasalat

Salamipylsa

Parmesanostur

Salt og pipar

 

Aðferð:
Byrjið á því að útbúa tómatana. Hitið ofn í 120-150 gráður. Hitinn á ofninum verður af ráðast af því hve langan tíma þið hafið til að leyfa tómötunum að vera í ofninum. Best er að gefa þeim góðan tíma og láta þá hægeldast í allt að 2-3 klukkustundir og þá á 120 gráðum. Athugið að það sleppur auðveldlega að hafa ofninn á 170 gráðum og fylgjast vel með tómötunum í klukkutíma ef ekki er lengri tími fyrir hendi.

Skerið tómatana í tvennt, leggið í ofnfast mót. Dreypið vel yfir þá af góðri ólífuolíu, saltið og piprið og stráið örlitlum sykri yfir að eigin vali. Leggið kryddjurtir yfir tómatana. Stingið í ofn. Kíkið reglulega á þá. Kryddjurtirnar brenna auðveldlega ef ofninn er of heitur. Best er að gefa tómötunum góðan tíma í ofninum. Þeir eru góðir heitir sem kaldir.

Fetaostakrem – allt hráefnið hrært, stappað, saman í skál, smurt á brauðið, frekar þykkt.

Skerið brauðið í sneiðar. Stingið undir grill, í heitan ofn eða setjið á grillpönnu. Alls ekki láta brauðið verða hart! Að þessu loknu er hálfu hvítlauksrifi nuddað ofan í brauðsneiðarnar og ólífuolíu dreypt yfir það.

Leggið brauðsneið á disk, smyrjið með fetaostakremi, leggið svo tværhál salamisneiðar ofan á, salat, þá tómata og rifinn parmesanost. Berið fram og borðið!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!