Halla Bára og Gunnar
Brauðréttir
08. janúar 2014

Brauðréttir

Við fórum í glæsilegt boð fyrir jólin þar sem hver rétturinn toppaði annan og allt smakkaðist frábærlega. Af einum réttinum fór þó sýnu mest og það var eini brauðrétturinn á borðinu. Ef slíkur réttur er borinn fram er vitað að hann er vinsæll. Margir klassískir brauðréttir eru í gangi og þess vegna er gaman að kíkja aðeins á nýjar uppskriftir. Brydda upp á nýjungum í næsta boði. Þessar er vert að prófa.

 

Tómat-crostini

 

Klassískt og ferskt hráefni, fljótlegur réttur, ítalskt yfirbragð. Frábær réttur á hlaðborð.

 

1 bagetta, í sneiðum

2 hvítlauksrif, skorin til helminga

ólífuolía

3 tómatar, skornir í teninga

hnefi af ferskri steinselju, saxaðri

1 dl svartar ólífur, skornar niður

1 kúla mosarellaostur, rifinn niður

salt og pipar

 

Grillið bagettusneiðarnar á báðum hliðum í ofni þar til þær verða aðeins stökkar. Smyrjið þær með hvítlauknum (nuddið skurðarhliðinni í brauðið). Raðið brauðinu í ofnfast mót og sáldrið steinselju yfir, dreypið olíu yfir brauðið, saltið og piprið. Loks koma tómatarnir yfir brauðið, ólífurnar og osturinn. Setjið undir heitt grill í ofni í nokkrar mínútur eða þar til osturinn mýkist upp. Berið fram í mótinu.

 

Ofnbakað kartöflu- og ostabrauð

 

Sniðugur og öðruvísi réttur. Góður með salötum og súpum. Heitur og í raun ómótstæðilegur.

 

10 dl fínt stappaðar kartöflur, best að mauka í matvinnsluvél*

2½ dl hveiti

3 msk smjör

½ tsk wasabi eða laukduft, má sleppa

½ tsk salt

½ tsk hvítur pipar

½ tsk cayenne-pipar

2½ dl vatn, við suðuhita

4 egg, hrærð

1 dl söxuð steinselja

2 dl rifinn ostur**

3 dl rjómaostur

 

Hitið ofn í 220 gráður. Smyrjið ofnfast mót að innan með smjöri. Hér er bæði hægt að setja brauðið í eitt stórt form eða fleiri minni.

Ef notuð er kartöflustappa frá því kvöldinu áður þarf að hita hana vel. Sömuleiðis þurfa kartöflurnar sem maukaðar eru í matvinnsluvél að vera heitar þegar deigið er útbúið.

Setjið hveiti, smjör, wasabi eða laukduft, salt, pipar og cayenne-pipar í hrærivélarskál. Hellið sjóðandi vatninu yfir og hrærið varlega saman. Blandið heitri kartöflustöppunni  saman við og hrærið vel. Þá fara eggin út í blönduna og áfram er hrært þar til mjúkt og áferðarfallegt deig hefur myndast. Látið deigið kólna aðeins.

Hrærið saman steinselju, rifinn ost og rjómaost.

Nú fer deigið í formið. Setjið rúmlega helming deigsins í formið og dreifið jafnt úr því. Smyrjið með ostablöndunni og setjið svo afganginn af deiginu yfir ostinn eins og lok.

Bakið í um 50 mínútur. Látið kólna aðeins áður en borið fram.

 

*Um að gera að nota afgang af kartöflustöppu í þennan rétt.

**Gott að hafa ostinn bragðmikinn, t.d. Ísbúa, Tind eða Sterkan Gouda

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!