Halla Bára og Gunnar
Bakaður aspas og crespelle pönnukökur
30. júní 2017

Bakaður aspas og crespelle pönnukökur

Örlítið sumarlegir réttir sem henta íslenskri stemmningu og veðurfari þar sem ostar eru í aðalhlutverki. Réttir sem henta sem matur á smáréttaborð, í veisluna, með grillmatnum. Ferskur aspas sem bakaður er upp í ostasósu og ítalskar pönnukökur sem rúllaðar eru upp með osti. Aspasinn góður sem máltíð, forréttur eða meðlæti. Pönnukökurnar sem litlir munnbitar með góðum drykk eða sem brauðmeti með mat.  Verði ykkur að góðu.

Bakaður, ferskur aspas með ostasósu

 

1 búnt ferskur aspas, snyrtur og endarnir skornir af

2 msk. smjör

1/3 b (75 g) hveiti

2 b (5 dl) mjólk

1 tsk. gott sinnep

½ tsk. worcestershire-sósa

½ tsk. salt

½ tsk. svartur pipar

1 ½ b (3½ dl) rifinn ostur; cheddar eða annar góður ostur

 

Hitið ofn í 200 gráður. Raðið aspasinum á smjörpappír sem er á ofnplötu eða í eldfast mót, ekki of hátt. Flott að raða honum í tvær raðir þar sem skornir endarnir lenda saman.

Bakið upp sósuna; bræðið smjör, hrærið hveiti saman við smjörið í nokkrum hlutum og úr verður hveitibolla. Hellið mjólk saman við í nokkrum hlutum og hrærið stanslaust, jafnt og þétt þar til úr verður hvítur jafningur, kekkjalaus og mjúkur. Tekur 2-3 mínútur og látið suðuna halda sér. Kryddið. Setjið rifinn ost saman við og hrærið þar til osturinn er bráðinn.

Hellið sósunni yfir miðju aspasins og stráið smá af rifnum osti yfir. Setjið í ofn í um 10 mínútur eða þar til aspasinn er eldaður í gegn og osturinn gullinn.

 

Ítalskar crespelle pönnukökur með osti

1 b (130 g) hveiti

½ tsk salt

3 egg

1 b (2 ½ dl) vatn

ólífuolía

fínt rifinn ostur að eigin vali; Búri, Tindur, Ísbúi

 

Hrærið saman þurrefnum. Brjótið eggin saman við, hellið vatninu með. Hrærið þar til úr verður kekkjalaus blanda. Athugið að deigið á að vera frekar þunnt.

Notið pönnukökupönnu eða aðra góða og slétta pönnu. Hitið hana og smyrjið með örlítilli ólífuolíu. Bakið pönnuköku. Um leið og hver pönnukaka er tilbúin, dreifið yfir hana rifnum osti og rúllið upp.

Berið fram í heilu lagi eða með því að skipta þeim niður í minni bita. Borðið með mat eða notið sem brauðmeti á smáréttaborð.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!