Halla Bára og Gunnar
Bakað úr súkkulaðiskyri - skúffukaka og skonsur
09. október 2017

Bakað úr súkkulaðiskyri - skúffukaka og skonsur

Það er góð og gild staðreynd að ýmsar mjólkurvörur eru góðar í bakstur. Í mörgum gömlum uppskriftum er einungis notast við mjólk sem vökva í sætmeti en það er að sjálfsögðu hægt að nota svo ótalmargt annað. Það var til súkkulaðiskyr í ísskápnum um daginn og mér fannst upplagt að nota það. Ég setti það í hefðbundna skúffuköku og svo aftur í gamaldags skonsur. Útkoman var virkilega góð og um að gera að prófa sig áfram. Athugið að það má svo sannarlega nota aðrar bragðtegundir af skyrinu í þessar uppskriftir.

Skúffukaka með súkkulaðiskyri

180 g hveiti, spelt eða heilhveiti

120 g sykur, hrásykur eða púðursykur

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. natron

4 msk. kakó

½ tsk. salt

1 lítil dós súkkulaðiskyr

3 msk. sólblómaolía

2 egg

2 dl heitt vatn

 

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið saman þurrefnin svo þau blandist vel. Bætið öðru hráefni saman við. Hrærið allt saman. Gætið að því að blanda vel en ekki hræra of mikið, það er óþarfi og kakan getur orðið seigari í áferð.

Hellið í smurt kökuform og bakið í 15-20 mínútur. Stingið prjóni í kökuna eða þrýstið á miðju hennar til að athuga hvort hún sé nægilega bökuð, fer allt eftir þykkt hennar. Ég passa mig alltaf á því að baka svona kökur ekki of mikið svo þær verði ekki þurrar. Kýs heldur að hafa þær blautari.

Takið úr ofninum og kælið. Setjið krem ofan á kökuna að eigin vali. Það er misjafnt hvort ég geri glassúr eða smjörkrem, en hvort tveggja er rosa gott.

 

Skonsur með súkkulaðiskyri

4-5 dl hveiti

1 ½ tsk. natron

½ tsk. salt

2 egg

2 msk. sólblómaolía

1 lítil dós súkkulaðiskyr

2 dl mjólk

 

Blandið saman þurrefnum. Hrærið egg, olíu, skyr og mjólk saman við. Gætið að því að blandan verði ekki of þunn með því að hella mjólkinni saman við í nokkrum hlutum. Gerir kekkjalausa blöndu.

Smyrjið pönnu með olíu í upphafi baksturs. Bakið á heitri pönnu þar til skonsurnar fá á sig gullin blæ. Berið þær fram heitar. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!