Halla Bára og Gunnar
Avocado kjúklingur
30. janúar 2017

Avocado kjúklingur

Hugmyndir að góðum mat koma alls staðar að. Það fer allt eftir því hvernig maður er innstilltur og hverju maður leitar að, hvert maður sækist. Nýlega rakst ég á vinsælustu uppskriftirnar á Pinterest á síðasta ári og þar var hugmynd í ætt við þessa sem hér birtist. Hún vakti athygli mína fyrir einfaldleika, mér fannst hún henta sem góður matur á virkum degi og vera frekar holl og góð fjölskyldumáltíð sem við öll gætum viljað. Og það passaði. Hugmyndin af Pinterest sló í gegn og þess vegna er um að gera að setja hana inn á bloggið okkar og leyfa fleirum að njóta.

4 kjúklingabringur

 

tortillur að eigin vali

góður ostur, rifinn eða í sneiðum / cheddar hentar vel en hentugt að nota afganga

 

1 dós sýrður rjómi

safi úr ½ lime

fínt rifinn börkur af ½ lime

salt og pipar

2 hæfilega þroskuð avocado, skorin í meðalstóra bita

4 vorlaukar, fínt saxaðir

ferskt kóríander er mjög gott með, saxað

 

Skerið kjúklinginn í hæfilega stóra og jafna bita, steikið á pönnu í góðri olíu og saltið og piprið. Þegar kjúklingurinn er rétt steiktur, slökkvið undir pönnunni og látið kjúklinginn kólna aðeins.

Hrærið saman sýrðan rjóma, safa og börk úr lime, smakkið til með salti og pipar. Hrærið avocado, vorlauk og kóríander saman við. Loks kjúklinginn.

Hitið pönnu að meðalhita. Setjið örlitla skvettu af góðri olíu á pönnuna. Dreifið osti á tortillu, setjið kjúklingablönduna í miðju hennar og brjótið brúnirnar yfir kjúklinginn svo tortillan lokist. Setjið á pönnuna og hitið tortilluna þar til osturinn bráðnar og kjúklingablandan hitnar. Snúið henni einu sinni til að forðast það að hún brenni. Berið fram.

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!