Halla Bára og Gunnar
Alveg verulega góður pastaréttur
12. september 2016

Alveg verulega góður pastaréttur

Alveg verulega góður pastaréttur, auðveldur og fljótlegur sem aldrei spillir fyrir. Ættaður frá Nigellu fyrir ansi löngu síðan í einhverri sjónvarpsseríunni, prófaði hann og hann virkaði vel. Dætur mínar eru líka hrifnar af honum sem fær hann til að falla í flokk góðs og matarmikils fjölskyldukvöldverðar! 

Heimalöguð tómatsósa með salami og kjúklingabaunum

 

1/2 rauðlaukur, saxaður

3 msk ólífuolía

salami, sjá skýringu

2 dósir niðursoðnir tómatar

1 dós kjúklingabaunir, mega vera niðursoðnar

salt og svartur pipar

1 tsk sykur


Varðandi salami þá má kaupa það niðursneitt í áleggsbréfi eða heila pylsu. Ég nota pylsu til að fá stærri bita og gera réttinn meira djúsí. Í þetta magn þarf um 7 cm af pylsunni, sneitt niður og skorið í bita, eða eitt áleggsbréf. 

Mýkið laukinn í olíu í potti eða á djúpri pönnu, bætið salamibitum saman við og látið malla í 5 mínútur, hrærið reglulega í á meðan. Hellið tómötum í pottinn sem og baununum. Látið sósuna malla á vægum hita í 10-20 mínútur án þess að hafa lok yfir pottinum. Þannig nær hún að þykkna og ná þessum sælkeraeiginleikum. Sykrið, þessu má sleppa en ég tek fram að það er oft mjög gott að setja örlítinn sykur í tómatsósur. Saltið og piprið. Berið fram með uppáhalds pastanu og rifnum parmesanosti.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!