Halla Bára og Gunnar
Á matarferðalagi um Ítalíu
22. júní 2015

Á matarferðalagi um Ítalíu

Við fjölskyldan erum á ferðalagi á Ítalíu. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð. Við erum mjög sæl! Ekki eingöngu er það landið, sólin og hitinn, mannlífið, umhverfið – heldur mikið til maturinn. Hér er mjög auðvelt að finna sér eitthvað sem mann langar í að borða.

Við flugum til Mílanó, þar sem við bjuggum eitt sinn um tíma, vorum afslöppuð þar í matnum og byrjuðum á góðri pizzu sem við vissum af. Við vorum nefnilega boðin í mat hjá ítölskum vinahjónum og vissum að þar fengjum við eitthvað sérstakt.

Það sem var merkilegt við þá heimsókn var að við fengum mat sem þau höfðu keypt hráefnið í, í sveitinni sinni sem er í fjöllunum í Piemonte. Við fengum osta þaðan, aðallega gerða úr kúamjólk, en einnig fyllt pasta sem kom virkilega á óvart. Það var ekki eingöngu úr hvítu hveiti, heldur var einnig í því gróft mjöl, sem lítur út eins og stuttir svartir þræðir sem hrært er saman við hveitið. Með því var brætt smjör með ferskri salvíu… ekkert vesen, ofsalega gott.

Við vorum í Róm í viku, vorum að koma þaðan, og borðuðum þar margt gott. Fórum á veitingastaði sem ítalskur lesandi Home and Delicious mælti með og þeir klikkuðu ekki. Einn þeirra heitir Tonino’s og þar mælti Eliane sérstaklega með að prófa pasta All’Amatriciana og gnocchi. Það gerðum við og…svakalega gott og frábær staður. Ekta Rómarstaður, lítill og umhverfið og stemmningin vann með honum. Við prófuðum fjóra pastarétti, fengum antipasti á undan og tvo eftirrétti. Og þar sem mælt var sérstaklega með pasta All’ Amatriciana fengum við okkur hann að sjálfsögðu.

Pasta All’Amatriciana er einn þekktasti rómanski rétturinn og einn þekktasti ítalski pastarétturinn. Hann er upprunninn úr fjöllunum á Rieti svæðinu í Lazio og verið viðurkenndur sem réttur svæðisins. Vitað er af fyrstu uppskriftinni í matreiðslubók árið 1790. Rétturinn er byggður á tómötum, reyktu svínakjöti (kinnum upphaflega), pecorino osti og lauk, hvítlaukur má líka vera, sem og svartur pipar eða chillí-pipar.

Okkur finnst við hæfi að byrja smá matarferðalag um Ítalíu á þessum sérlega einfalda en góða rétti. Ítalir nota pecorino-ost með honum en fyrir þá sem ná ekki í hann eða parmesan, þá má benda á að fara þá leið að rífa niður ferskan mozzarella út í sósuna og láta hann mýkast upp í henni og klístrast við pastað.

Pasta All’Amatriciana

400 g spagettí eða bucatini ef það fæst  (holt spagettí, mikið notað í kringum Róm)

4 msk góð ólífuolía

130 g pancetta í bitum eða gott beikon skorið í bita, best ef það er frekar þykkt

1 lítill laukur, fínt saxaður

1 rautt chillí, um 1 tsk, fínt saxað, má sleppa

2 msk hvítvín

örlítið salt

500 g góðir, rauðir tómatar, skornir í báta eða bita

80 g pecorino eða parmesan

 

Aðferð:

Setjið lauk, chillí og pancettu/beikon á pönnu ásamt ólífuolíu og mýkið í 4-5 mínútur á miðlungshita. Hellið hvítvíninu á pönnuna, saltið aðeins og setjið tómatana saman við. Látið malla á vægum hita í 20-30 mínútur og hrærið í sósunni annað slagið.

Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum, saltið vatnið vel (það er tvennt sem við höfum lært undanfarið – að salta pastavatnið mun meira en við erum vön og að sjóða pastað örlítið styttra en við höfum gert. Skiptir öllu máli).

Látið renna af pastanu og hrærið sósuna saman við það. Berið fram með nógu miklu af osti og um að gera að prófa að rífa mozzarellakúlu saman við pastað í skálinni/pottinum og láta hann leika um allt.

Kveðja frá Ítalíu! 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!