Halla Bára og Gunnar
Bakaður hvítlaukur á brauðsnittu ásamt osta- og spínatþríhyrningum í fílódeigi
13. nóvember 2014

Bakaður hvítlaukur á brauðsnittu ásamt osta- og spínatþríhyrningum í fílódeigi

Tvær uppskriftir ekki nýjar af nálinni sem við dustuðum rykið af fyrir nokkru og féllum aftur fyrir. Bakaði hvítlaukurinn er líklega ein einfaldasta og jafnframt ódýrasta leiðin til að skella í forrétt eða smárétt með góðum drykk. Fílóþríhyrningarnir taka aðeins lengri tíma í vinnslu en eru svo djúsí og góðir að tíminn sem fer í þá er þess virði.

 

Bakaður hvítlaukur á brauðsnittu

Hvítlauksuppskriftin er sótt aftur í tímann og kemur hún upprunalega frá miklum hvítlauksunnanda. Henni skaut aftur upp í hugann fyrir tilviljun og mun verða geymd þar. Einstaklega einfaldur réttur og bragðgóður enda hvítlaukurinn sætur eftir bakstur og myndar fullkominn munnbita með brauði og sýrðum rjóma.

 

½ til 1 hvítlaukur á mann

ólífuolía

salt og pipar

sýrður rjómi

ristað brauð, bagetta, súrdeigsbrauð, tortillur

 

Hitið ofn í 200 gráður. Hvíta og þurra hýðið er tekið utan af hvítlauknum en þess gætt að taka hann ekki í sundur né afhýða rifin. Svolítilli olíu er dreypt á laukinn ásamt salti og pipar. Laukurinn er settur í eldfast mót með loki eða hann vafinn í álpappír.

Stingið í ofn í um 30-40 mínútur eða þar til hvítlaukurinn er lungamjúkur. Gott er að dreypa örlítilli olíu á hann á miðjum eldunartímanum. Berið hvítlaukinn fram með góðu brauði eða ristuðum brauðbitum og sýrðum rjóma.

Sýrður rjómi er smurður á brauðið og  eitt og eitt hvítlauksrif kreist úr hýðinu á hvern brauðbita. Frábær forréttur og sem hluti af forréttaborði.

 

Hvítlaukinn má að sjálfsögðu grilla en þá er hann vafinn í álpappír og látinn bakast á efri grindinni á grillinu þar til hann er mjög mjúkur alveg í gegn.

 

 

Osta- og spínatþríhyrningar í fílódeigi

 

Fílódeig og ostar sem er bakað saman í ofni er bæði stökkt og mjúkt og sameinar skemmtilegt bragð. Þessir þríhyrningar rötuðu oft á veisluborð hér áður fyrr og munu nú eftir ánægjulega upprifjun gera það í framtíðinni. Hentar vel með góðum drykk á undan mat.

 

 

125 ml ólífuolía

1 blaðlaukur, fínt saxaður

225 g frosið eða ferskt spínat

hnefafylli steinselja, smátt söxuð

85 g fetaostur

85 g parmesanostur eða rifinn cheddar-ostur

1 egg, hrært

salt og svartur pipar

14 fílódeigsblöð

 

Hitið ofn í 200 gráður. Hitið 3 msk af ólífuolíu á pönnu og mýkið laukinn. Hrærið spínatið saman við sem og steinseljuna. Mýkið í nokkrar mínútur. Takið af hitanum og hrærið eggið saman við ásamt ostunum. Smakkið til með salti og pipar.

Vinnið með eitt fílódeigsblað í einu, haldið hinum blautum undir rökum klút. Smyrjið blaðið með olíu, látið það liggja fyrir framan ykkur á breiddina, og brjótið saman á langveginn, frá vinstri til hægri. Smyrjið þurru hliðina með olíu og skerið deigið í tvennt, aftur á langveginn.

Setjið um eina matskeið af blöndunni á enda deigsins, í hornið til vinstri. Brjótið það horn niður og yfir deigið og látið hliðarnar uppi leggjast saman. Úr verður þríhyrningur. Brjótið áfram niður og þá yfir frá hægri til vinstri og svo alla leið niður á þennan hátt.

Smyrjið brúnirnar með olíu til að festa deigið saman. Látið á bökunarplötu, á bökunarpappír. Bakið í ofni í um 35 mínútur eða þar til deigið er gullið. Berið þríhyrningana fram heita eða við stofuhita.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!