Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Þrjár vinsælar uppskriftir
30. maí 2018

Þrjár vinsælar uppskriftir

Mig langaði að setja saman í eitt blogg nokkrar af uppáhalds uppskriftunum á mínu heimili. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera auðveldar að útbúa og að sjálfsögðu smakkast vel. Börnin mín útbúa þessar uppskriftir reglulega og er alveg nóg að mamma sé innan handar á heimilinu þar sem þeim finnst virkilega skemmtilegt að fá að vera stundum ein í eldhúsinu að baka.

Chia búðingur með hindberjajógúrt

Uppskrift er fyrir tvo.

Þessi uppskrift hentar bæði sem eftirréttur eða sem nesti með í vinnu/skólann. Mettar vel og frískar upp á daginn hjá manni.

 

1 dós kókosmjólk: Þegar dósin er látin standa skiptir mjólkin sér í tvennt. Notið allan þykka hlutann en aðeins 1 dl af kókosvatninu (þynnri hlutinn)

2 msk. rjómi frá Gott í matinn

4 msk. chiafræ

Vanillufræ á hnífsoddinn (má sleppa)

 

Blandið saman í skál öllu nema chiafræjum. Þegar allt er vel blandað eru chiafræin sett saman við, hrært vel í. Geymið í kæli í nokkra klukkutíma eða yfir nótt.

 

Hindberja jógúrt:

2 dl af grískri jógúrt frá Gott í matinn

30 g frosin hindber (má skipta út fyrir önnur ber)

 

Setjið í skál og blandið vel saman með töfrasprota.

Setjið chiafræ í glas eða krukku og setjið svo jógúrtið með.

 

Kókoskúlur

Þessar eru það allra vinsælasta hjá krökkunum að útbúa hér heima.  Ég er líka dugleg að taka nokkrar með mér í vinnuna stundum enda góð fita í þeim sem mettar mann þegar sykurpúkinn bankar upp á.

 

100 g mjúkt smjör

70 g möndlumjöl

30 g kókosmjöl (og meira til að skreyta)

3 msk. kakó

1 msk. vanilludropar eða rommdropar

2-4 msk. sukrin melis (eftir því hversu sætt þú vilt)

Mér finnst gaman að breyta til og setja t.d. chiliflögur, rifin appelsínu- eða sítrónubörk eða jafnvel bæta við hökkuðum hnetum við.

 

Hráefnum blandað saman í skál. Búnar eru til kúlur og rúllað upp úr kókosmjöli.

Sett á disk og inn í ísskáp í klst. Geymist í kæli. 

 

Súkkulaðikaka

Þessi uppskrift er sú nýjasta í safninu hjá mér. Hefur virkilega slegið í gegn hjá fjölskyldunni og vinum sem hafa kíkt við í heimsókn. Kakan er heldur ekki verri með þeyttum rjóma og ískaldri mjólk.

 

100 g smjör

3 egg

3,5 dl möndlumjöl

2 msk. rjómi frá Gott í matinn

2 dl Sukrin Gold

2-3 msk. ósykrað kakó

1 tsk. lyftiduft

 

Bræðið smjörið.

Setjið allt í skál og blandið með töfrasprota. 

Einnig er hægt að byrja á að þeyta egg og sykur og blandað svo öllu saman.

Setjið í form sem búið er að smyrja með smjöri. Mitt form er um 22 cm 

Bakið í miðjum ofni á 170 g í um 15 mínútur.

 

Krem:

110 g smjör

100 g rjómaostur frá Gott í matinn

3 msk. kókos

2 msk. ósykrað kakó

2 msk. gott uppáhellt kaffi

4 msk. Sukrin Melis

 

Látið smjör og rjómaost ná stofuhita.

Þeytið smjörið vel í nokkrar mínútur og bætið við sukrin melis.

Bætið við rjómaosti og blandið vel saman.

Kaffi, kókos og kakó bætt við.

Setjið kremið á kökuna og stráið yfir kókos.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!