Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Sykurlaus graflax og kaka
19. desember 2018

Sykurlaus graflax og kaka

Mér finnst graflax og graflaxsósa alveg ómissandi yfir hátíðirnar og þar sem ég keypti laxinn alltaf tilbúin vissi ég ekki að hann væri yfirleitt útbúinn með sykri. Því ákvað ég að prófa ein jólin að útbúa minn eigin graflax og kom mér það á óvart hversu auðvelt það er í raun og hvað þá að útbúa hann sykurlausan!

Í fyrra þá kom dóttir mín með þá ósk að útbúa ostaköku með piparkökubragði sem ætti að vera líka sykurlaus og auðvitað fórum við saman í eldhúsið að baka. Kakan sló í gegn og verður að sjálfsögðu aftur bökuð þetta árið.

 

Grafin lax og graflaxsósa

1 kg af laxaflaki

125 g gróft salt

125 g Sukrin Gold

1,5 msk. dill

0,5 msk. fennelfræ

1 msk. sinnepsfræ

½ tsk. svartur pipar

 

Blandið salti og sykri saman í skál. Stráið salti/sykurblöndunni á bakka og leggið flakið yfir með roðið niður. Stráið smá af blöndunni yfir laxinn og nuddið vel í fiskinn.

Kryddin blönduð vel saman í annarri skál og stráð svo yfir laxinn.

Stráið salti/sykurblöndunni jafnt yfir.

Pakkið flakinu vel inn í álpappír og stingið nokkrum sinnum í álpappírinn með gaffli báðum megin. Geymið flakið í kæli í fati og snúið á 12 klukkutíma fresti.

Ég geri þetta í 3 sólahringa.

Borðið á þriðja degi eða setjið í frysti og geymið.

 

Graflaxsósa

100 g sýrður rjómi frá Gott í matinn

½ msk. Dijon sinnep

1 msk. dill

3 msk. sítrónusafi

Salt og pipar eftir smekk

 

Blandið hráefnunum vel saman í skál.

 

Ostakaka með piparkökubragði

Botn

100 g smjör
120 g möndlumjöl
3 msk. Sukrin Gold
1 msk. kanill

Bræðið smjör í potti. Bætið öðru hráefni við og blandið vel saman. Hellið í 20 sentímetra sílíkon- eða springform (ef þið notið springform þarf að smyrja það með smjöri eða olíu). Þjappið botninum vel niður og aðeins upp með hliðum. Bakið við 170 gráður í um það bil 10-12 mínútur eða þar til gyllt. Kælið.

Fylling

250 g rjómaostur frá Gott í matinn
70 g Sukrin melis
1 tsk. vanilluextrakt eða -dropar
3 dl þeyttur rjómi frá Gott í matinn
3 msk. Fibersirup Gold
2 tsk. kanill
1 tsk. negull
1 tsk. engifer

Hrærið rjómaostinum og Sukrin melis vel saman. Bætið vanillu, Fiber­sirup Gold og kryddi við. Blandið þeyttum rjóma saman við í lokin. Hellið yfir botninn og frystið í tvo til þrjá klukkutíma.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!