Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Sykur-, hveiti- og glútenlaus rúlluterta
31. mars 2015

Sykur-, hveiti- og glútenlaus rúlluterta

Nú er stutt í páskana og því má ég til með að skella hér inn einni af mínum uppáhaldstertum. Rúlluterta. Þessi er sykur-, hveiti- og glútenlaus.

Ég gleymi ekki gleðinni sem kom í eldhúsinu þegar ég bjó þessa til í fyrsta sinn. Börnin hoppuðu um af gleði. Hún var svo góð víst og var ekki lengi að hverfa ofan í litla malla.

Til að fá smá páska og vorkeim breytti ég aðeins uppskriftinni með því að bæta við rifnum sítrónuberki í kremið.

Tertan

3 egg, aðskilja rauðuna og hvítuna

100 g rjómaostur

2 msk sýrður rjómi, ég er mjög hrifin af 36%

1 tsk vínsteinslyftiduft

10 dropar vanillu stevía

30 g sukrin melis

2-3 msk ósykrað kakó

saltklípa

2-3 msk sukrin

 

Stífþeytið eggjahvítur ásamt saltklípu og vínsteinslyftidufti.

Þeytið vel saman eggjarauður, rjómaost, sýrðan rjóma og sukrin melis í annarri skál.

Bætið restinni af hráefninu við eggjarauðurnar. Að lokum eru eggjahvítunum blandað varlega saman við allt með sleif. Notið smjörpappír eða bökunarpappír sem búið er að bera olíu eða bráðnuðu smjöri á og fyllir heila ofnskúffu. Stráið smávegis af sukrin yfir pappírinn og setjið deigið ofan á. Bakið við 175 gráður í 10-15 mínútur.

 

Kremið

50 g rjómaostur

40-50 g sukrin melis

15 dropar vanillu eða karamellu stevía

150 ml rjómi

rifinn börkur af einni sítrónu eða hálfri appelsínu

 

Þeytið saman rjómaost, sukrin melis og stevíu. Bætið rjóma út í og þeytið þar til kremið verður stíft. Bætið við berkinum og blandið vel við kremið.

Þegar botninn er orðinn kaldur, smyrjið kreminu yfir og rúllið varlega upp. Gott er að nota bökunarpappírinn sem er undir til að hjálpa manni að rúlla upp.

Gleðilega páska :)

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!