Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Spínatpizza og lime ostakaka í sumarfríinu
20. júlí 2015

Spínatpizza og lime ostakaka í sumarfríinu

Þegar koma rigningadagar, margir í röð í sumarfríinu er gott að útbúa eitthvað gott og sumarlegt í eldhúsinu til að fríska mann við. Ég kvarta svo sem ekki yfir rigningunni. Mild sumarrigning er yndisleg. Það er eitthvað við það að fara út í göngutúr í sumarrigningunni, þegar hún rignir beint niður en ekki upp eða til hliðar eins og yfirleitt hér á landi. Ekki skemmir að grasið verður svo fallega grænt eftir rigningu. Grænn er einmitt þemalitur í þessu bloggi hjá mér. Grænar uppskriftir :)

Spínatpizzan er æðisleg og hrikalega auðvelt að gera. Ég geri hana reglulega og hún slær alltaf í gegn.

Ef þú átt von á gestum þá mæli ég með lime ostakökunni minni. Það er líka hægt að vera sniðugur og setja uppskriftina í krukku og taka með sér út í náttúruna og gæða sér á í íslenskri náttúrunni. Gerist ekki betra!

 

Spínatpizza

2 góðar lúkur af fersku spínati, rífið stilka frá

1 egg

100 g rifinn ostur frá Gott í matinn

pizzakrydd og hvítlaukskrydd eftir smekk

álegg að eigin vali 

 

Skolið spínatið undir köldu vatni. Setjið það síðan í blandara eða matvinnsluvél ásamt eggi og maukið. 

Spínatið á að verða að vökva. Bætið ostinum saman við og blandið smá í viðbót ásamt kryddum.

 

Penslið bökunarpappír með olíu eða notið pam sprey.

Dreifið úr botninum á bökunarpappírinn svo úr verði um það bil 12" botn. 

Best er að nota hendurnar og gera þetta varlega.

 

Setjið botninn inn í ofn á 200 gráður og bakið í 12-15 mínútur eða þar til aðeins gylltur.

 

Setjið á pizzuna sykrlausa pizzusósu (ég nota hunt's eða geri sjálf) og það álegg sem þið viljið.

Bakið aftur þar til osturinn er gylltur.

---

Lime ostakaka

Fyrir 4-5

 

Botn:

2,5 dl möndlumjöl

20 g bráðið smjör

1 msk kanill

 

Fylling:

1,5 dl rjómi

1,5 matarlímsblað

100 g sýrður rjómi (notaði sjálf 36%)

100 g rjómaostur 

1 lime

2,5 msk Sukrin Gold

 

Möndlumjöli, bræddu smjöri og kanil blandað saman og hitað í potti á vægum hita. Hrærið reglulega í og passið að brenna ekki.

Matarlímsblöðin eru sett í kalt vatn í 5 mínútur.

Rjómi þeyttur.

Börkur af lime er rifinn niður og safi pressaður úr.

Matarlímsblöðin eru sett í pott með 1 msk af heitu vatni og sukrin gold. Hrært í og limesafa og berki blandað út í. Tekið af hellunni þegar allt er blandað saman.

Sýrður rjómi og rjómaostur þeyttur vel saman og svo blandað varlega við rjómann. Næst er sukrin-límblöndunni blandað vel saman við.

Setjið í glös, botninn fyrst og svo ostakökuna. Skreytið með smá möndlubotni ofan á og rifnum lime berki.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!