Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Spínat pizzabotn og ostapizza
21. apríl 2017

Spínat pizzabotn og ostapizza

Föstudagar eru pizzudagar heima hjá mér. Upp á síðkastið hefur verið keyptur tilbúinn pizzubotn í búð og svo setur hver og einn sitt álegg á pizzuna. Ég hef nokkrum sinnum gert spínatpizzubotn en það er nokkuð langt síðan. Ákvað að prófa að gera girnilega pizzu og athuga hvernig fjölskyldunni litist á. Pizzan sló betur í gegn en ég bjóst við en ég var spurð hvort við gætum haft svona pizzu sem allra fyrst aftur og hvort það væri möguleiki að mamma gæti nú bakað svona pizzu til að taka með í nesti í skólann. Gaman var líka að heyra að pizzabotninn væri bara með þeim betri sem börnin höfðu smakkað.

Myndirnar sýna því miður ekki hversu góðar pizzurnar eru en ég hvet ykkur endilega til að prófa þessa botna sjálf ;)

Spínatpizzubotn með karamelliseruðum lauk, beikoni og rjómaosti

 

Spínatpizzubotn

2 góðar lúkur af fersku spínati-rífið stilka frá

1 egg

100 g rifinn ostur MS Gott í matinn

pizzukrydd og hvítlaukskrydd eftir smekk

Skolið spínat undir köldu vatni. Setjið það síðan í blandara eða matvinnsluvél ásamt eggi og maukið. 

Spínatið á að verða að vökva.

Bætið við ostinum og blandið smá í viðbót ásamt kryddum.

Penslið bökunarpappír með olíu.

Dreifið úr botninum á bökunarpappírinn svo úr verði um 12" botn. 

Best er að nota hendurnar og gera þetta varlega.

Setjið botninn inn í ofn á 200 gráður og bakið í 12-15 mínútur eða þar til aðeins gylltur.

Steikið beikon þar til tilbúið. Setjið á disk með eldhúspappír á meðan laukurinn er útbúinn

Setjið á pizzuna sykurlausa pizzusósu.

Því næst fer rifinn ostur yfir og bætið svo lauknum, beikoni, rjómaosti og smá pipar við og í lokin er smá af rifnum osti dreift yfir.

Bakið þar til osturinn er gylltur.

 

Karamelliseraður laukur

Skerið 1 lauk niður. Setjið 2 msk. af smjöri á pönnuna sem notuð var til að steikja beikonið. Ekki þrífa pönnuna á milli. Setjið laukinn út á og piprið örlítið. Lækkið hitann vel niður og látið malla með lokinu á í 20-30 mínútur. Hrærið reglulega í lauknum. Í lokin bætið þið við 1 msk. af Fibersirup Gold eða Sukrin Gold og blandið við. Ef þið eigið ekki þessar vörur má alveg sleppa þeim. Mér fannst Fibersirupið gefa smá “kikk” í bragðið.

--

Þessi uppskrift að pizzabotni er eins og sú fyrri, fljótleg og góð. Það er hægt að skipta út ostunum sem settar eru á hana eftir því hvað maður á í kælinum og í raun er enginn ostur verri en annar, enda ostar guðdómlega góðir allir ;)

Ostapizza

 

Botn:

2 egg

2 góðar msk rjómaostur MS Gott í matinn

1 msk. Husk

2 tsk. pizzukrydd

 

Álegg:

Dala Camenbert ostur

Gráðaostur frá MS

Piparostur frá MS

Hreinn rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn

 

Setjið hráefni fyrir botninn í hátt glas eða box og blandið vel saman með töfrasprota eða setjið í blandara.

Setjið í sílikonform sem er 9 tommur að stærð. Ég var sjálf með 8 tommu (20 cm) form og fékk aðeins þykkari botn. 

Bakið á 200 gráðum í 10-15 mínútur eða þar til pizzubotninn fer aðeins að lyfta sér.

Takið botninn úr ofni og smyrjið sykurlausri pizzusósu yfir.

Dreifið rifnum osti yfir.

Skerið ostana í litla bita og dreifið yfir pizzuna.

Bakið áfram í 5-10 mínútur eða þar til rifni osturinn er gylltur.

 

Fyrir þá sem vilja fá sultu með til hliðar:

 

Jarðarberjachiasulta

1 bolli jarðaber fersk eða frosin

1 msk. chia

1 msk. heitt vatn

2 tsk. sukrin melis (má sleppa)

1 msk. sítrónu safi

 

Allt sett í skál og blandað með töfrasprota eða nota aðrar græjur sem henta.

Þegar búið er að blanda setja í krukku og loka og inn í ísskáp eða eins og í þessu tilfelli njóta með pizzunni.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!