Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Sítrónulax og súkkulaðimús úr grískri jógúrt
18. febrúar 2015

Sítrónulax og súkkulaðimús úr grískri jógúrt

Með hækkandi sól þá fer líkaminn minn að öskra á lax í allar máltíðir. Það er eitthvað svo kósý við það að fara tvisvar í viku út í hverfisfiskbúðina og næla sér í væna sneið af lax. Hvað þá þegar starfsfólkið er alltaf brosandi og yndislegt. Já lax er mitt nýja uppáhald! Æj ég er þessi týpa sem fæ æði fyrir einhverju og æðið breytist í hálfgerða áráttu. Um daginn var áráttan mín blómkál, sem er enn til staðar en laxinn er búinn að ná að troða sér í efsta sætið á listanum mínum.

Þessi réttur er sumarlegur og góður og hjálpar mér að halda í vonina að þessi blessaði vetur fari að taka enda.

Sítrónulax með blómkáls- og brokkolímús og kaldri dillsósu

Fyrir 4

 

Um 800g af ferskum laxi, gott að skera í fjóra 200g bita

2 msk olía

börkur utan af einni sítrónu

2 msk sítrónusafi

salt og pipar eftir smekk

 

Blandið saman í skál olíu, sítrónuberki og sítrónusafa. Setjið laxabita í eldfast mót og penslið olíublöndunni á hann. Ef laxinn er roðlaus, snúið honum við og penslið þar líka. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið afgangs olíublöndu yfir laxinn.

Bakið við 200 gráður í 12-15 mínútur.

 

Dillsósa

100g grísk jógúrt

3 msk sýrður rjómi, ég var með 36%

1 hvítlauksgeiri, smátt saxaður

1 msk ferskt dill, saxað

2-3 tsk rjómi

1 tsk sukrin gold

salt og pipar eftir smekk

 

Blandið öllu vel saman í skál.

 

Blómkáls og brokkolímús


250g blómkál

150g brokkolí

30g smjör

50g rifinn ostur

smá salt og pipar

 

Skerið blómkál og brokkolí í litla bita og sjóðið þar til mjúkt.

Notið töfrasprota til að mauka grænmetið ásamt smjörinu. Í lokin bætið þið smá af salti og pipar og rifna ostinum og blandið vel.

-----

Súkkulaðimús úr grískri jógúrt

Fyrir 4

 

200g grísk jógúrt

30g ósykrað kakó

60g Sukrin melis

2 matarlímsblöð

3 msk vatn

2 eggjahvítur

 

Stífþeytið eggjahvítur og setjið til hliðar. Jógúrt, kakó og sukrin melis hrært vel saman. Látið matarlím liggja í köldu vatni í ca. 5 mínútur. Kreystið matarlím og setjið í pott ásamt 3 msk af vatni brætt á vægum hita þar til alveg uppleyst. Blandið matarlími varlega við jógúrtblönduna. Í lokin er eggjahvítum blandað varlega við.

Setjið í 4 skálar eða eina stærri og setjið í kæli í um klukkustund.

Gott er að strá örlitlu af kókosmjöli yfir.                         

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!