Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Sítrónu frómas
17. desember 2014

Sítrónu frómas

Hversu yndislegt er það að desember er kominn og það er búið að vera snjór ALLAN tímann? Það er bara best í heimi þegar maður fær að njóta aðventunnar með hvítum jólasnjó. Já eins og hefur komið fram þá er ég mikið jólabarn. Kannski ekki skrítið þar sem ég þarf að bíða eftir desembermánuði til að fá bæði afmælis- og jólagjafir. Ég elska að fá pakka, það er best í heimi. Ég elska líka að gefa pakka. Ég vil helst gefa öllum pakkana sína um leið og ég er búin að pakka þeim inn og helst vil ég rífa upp pappírinn fyrir viðtakendurna svo ég geti séð svipin sem fyrst þegar viðkomandi sér gjöfina. Já ég er mjög skrítin. Maðurinn minn veit til dæmis að það þýðir ekki að geyma gjöfina mína hér heima og lætur foreldra sína um að geyma pakkann heima hjá þeim þar sem ég er allavega það dönnuð að ég fer ekki að gramsa í skápunum þeirra, þó svo að mig langi það ótrúlega mikið.

Baksturinn hefur verið lítill hjá mér í desember. Nóg að gera varðandi bókina og svo bara hvarf eldhúsgleðin í smá jólafrí. En ég er samt með æðislega uppskrift að eftirrétt fyrir jólin nú eða áramótin; sítrónu frómas. Ójá þessi er æði! 

Sítrónu frómas fyrir 4

250 ml rjómi
4 matarlímsblöð
3 egg, aðskilja rauður og hvítur
80 g sukrin
8 dropar stevia
Börkur og safi úr 1 sítrónu

 

Byrjið á að stífþeyta hvíturnar og setjið til hliðar í skál. Setjið matarlímsblöð í kalt vatn til að mýkja þau.
Stífþeytið rjómann og geymið til hliðar í annarri skál.
Eggjarauður, stevia og sukrin þeytt vel saman og sítrónuberki bætt út í.
Kreistið vatn úr matarlími og setjið matarlím og sítrónusafa í pott og hitið varlega þar til matarlím er uppleyst.
Setjið sítrónusafa og matarlímsvökvann varlega út í eggjarauðublönduna og blandið vel saman.
Næst er rjómanum bætt út í og að lokum eggjahvítunum. Blandið eggjahvítunum varlega saman til að loftið fari ekki úr þeim.
Setjið í eina skál eða nokkrar litlar og skreytið með þeyttum rjóma og smá sykurlausu súkkulaði.

Ég vona að þið eigið yndislega hátíð með þeim sem ykkur þykir vænt um og munum að jólin koma hvort sem maður er búinn að baka allar sortir af smákökum eða þrífa gluggana :)

Knús og kossar, Hafdís

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!