Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Pistasíukjúklingur með fyllingu og fleira góðgæti
27. mars 2015

Pistasíukjúklingur með fyllingu og fleira góðgæti

Ég held að mitt heimili sé ekki það eina sem er farið að þrá vorið. Veturinn er búinn að vera lengri hér í höfuðborginni en þeir síðustu. Ég er ótrúlega ánægð að hafa fjárfest í einu stykki jeppa síðasta sumar og losað mig við litla bílinn minn sem ég var gjörn að festa þegar snjóaði almennilega. Já, jeppinn hefur bjargað miklu. Núna þegar vorið er aðeins farið að kíkja á mann svona eina klukkustund á viku kemur spennan yfir mann að þessi vetur sé alveg að verða búinn. Börnin mín eru líka þannig gerð að um leið og sólin fer að skína vilja þau fara fá boost. Þetta boost er hrikalega auðvelt að gera, ótrúlega hollt og smakkast æðislega. Sonur minn sem verður 9 ára eftir nokkrar vikur gerir þennan drykk sjálfur og finnst hann góður ofan í magann áður en hann hoppar á fótboltaæfingu.

Hindberja lassi

 

250 g frosin hindber

250 g hrein jógúrt

150 ml mjólk að eigin vali (léttmjólk, fjörmjólk, laktósafrí eða möndlu)

12-15 dropar hindberja stevia eða bragðlaus stevia

1 bolli klakar

 

Setjið allt í blandarann og blandið vel. Ef blandarinn er ekki nógu kraftmikill er gott að láta hindberin þiðna aðeins svo blandarinn eigi auðveldari með að vinna með þau.

Þessi uppskrift dugar í tvö stór glös.

-----

Við hjónin erum mjög dugleg að festast í sömu uppskriftunum. Kjúklingurinn er alltaf eins eldaður og það sama má segja um annað kjöt og fisk. Því höfum við tekið okkur aðeins á og einu sinni í viku prófum við nýja uppskrift. Í þetta sinn ákváðum við að nota það sem til var heima og útkoman kom skemmtilega á óvart. Ég er mikið fyrir hnetur en hef ekki verið dugleg að nota þær í matseld, þar til núna. Ég var ekki með sósu sjálf með þessum mat en ég mæli með að útbúa villisveppaostasósu með einum villisveppaosti og einum pela af rjóma fyrir þá sem kjósa.

Pistasíu kjúklingur með fyllingu.

 

4 kjúklingabringur (við kaupum ósprautaðar bringur)

100 g pistasíur

30 g rifinn ostur

2 skinkusneiðar

2-3 tsk Dijon sinnep

1 tsk hvítlauksalt

1 1/2 tsk paprikukrydd

2-3 msk olía

salt og pipar eftir smekk

 

 

Fín saxið 70 g af hnetunum og setjið í skál ásamt kryddum. Gróf saxið restina og setjið til hliðar.

Skerið skinkuna niður í litla bita og blandið við ostinn og sinnepið.

Skerið rauf langsum ofan á kjúklingabringunum.

Setjið bringurnar, eina í einu í skálina með fínsöxuðu hnetunum og hjúpið og setjið svo í eldfast mót sem búið er að setja 2-3msk af olíu á botninn.

Fyllið bringurnar með osta- og skinkublöndunni og setjið svo restina af hnetunum yfir bringurnar.

 

Eldið á 200°C í 45-50 mínútur. Ef þið eruð með sykursprautaðar bringur gæti eldunartíminn verið styttri.

 

Sætar kartöflur með fetaosti.

 

1 meðalstór sæt kartafla

Fetaostakubbur frá Gott í matinn

Rósmarín

Salt og pipar eftir smekk

Olía

 

Skerið sætu kartöfluna í sneiðar. Ef þið kjósið, er hægt að skræla hana áður en við skolum hana og skrælum ekki. Setjið sneiðarnar á bökunarpappír og penslið báðum megin með olíu og kryddið með salt og pipar. Takið um 1 msk af fetaosti á hverja sneið og stráið yfir ásamt smá af rósmarínkryddi.

Bakið við 200°C í 15-20 mínútur.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!