Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Piparmyntuhnappar og frosnir kossar
08. desember 2016

Piparmyntuhnappar og frosnir kossar

Aðventan er runnin upp og margir njóta þess að baka og hafa gaman í skammdeginu. Hér eru tvær barnvænar uppskriftir sem börnin mín elska að útbúa um jólin, jahh reyndar allan ársins hring en sjálfri finnst mér þær vera mjög jólalegar ;)

Piparmyntuhnappar

110 g rjómaostur við stofuhita

450 g sukrin melis (flórsykur ef þið eruð ekki að forðast sykur)

1 tsk. piparmyntudropar

20 dropar piparmyntu stevia (má sleppa)

matarlitur ef þess er óskað

 

Setjið rjómaostinn í hrærivél helst en hægt að gera þetta í höndum og þeytið vel í smá stund.
Bætið við piparmyntudropum og stevíu og blandið vel.
Því næst fer matarlitur og svo er sukrin melis rólega bætt við.
Gott er að hnoða aðeins í höndunum í lokin.

Búið til litlar kúlur og setjið á ofnplötu með bökunarpappír á.
Notið svo gaffall til að þrýsta örlítið á kúlurnar.
Látið þorna á eldhúsborðinu í 2-3 klukkutíma. Ekki setja neitt yfir nammið á meðan.
Geymið svo í ísskáp í lokuðu íláti. Geymist í mánuð eða lengur.

Súkkulaðigrísirnir geta brætt sykurlaust súkkulaði og dýft namminu í.

Frosnir kossar

150 g óhrært skyr

20 g sukrin melis

60 ml rjómi frá Gott í matinn

bragðdropar t.d. piparmyntu ef þess er óskað

nokkrir dropar af matarlit ef þess er óskað

 

Öllu blandað vel saman í skál.
Blandan er svo sett í sprautupoka og sprautað á bökunarpappír.
Sett í frysti í 20-30 mínútur.
Þegar kossarnir eru orðnir harðir er gott að setja þá í skál og geyma í frysti.
Borðað kalt og beint úr frystinum.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!