Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Kjúklingasúpa og jarðarberja ostakaka
24. október 2017

Kjúklingasúpa og jarðarberja ostakaka

Hér koma tvær góðar uppskriftir sem eru vinsælar á mínu heimili.

 

Kjúklingasúpa:

1 laukur

1 rauðlaukur

1 rauð paprika

2 hvítlauksgeirar

2 dósir af tómötum

1 msk. karrí

1 kjúklingateningur

3 kjúklingabringur

1 msk. Tabasco sósa

150 g rjómaostur

Pipar og óreganó eftir smekk

Rifinn ostur og sýrður rjómi eftir smekk

 

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu með íslensku smjöri. Kryddið með salti og pipar ásamt chilikryddi eftir smekk.

Skerið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn niður í bita og steikið í potti með olíu og karrí þar til laukurinn er orðinn gylltur og mjúkur.

Bætið við tómötum úr dós.

Látið vatn í tómu dósirnar til að skola þær og hellið vatninu í pottinn og bætið við kjúklingateningi og tabasco sósunni. Kryddið eftir smekk með pipar og óreganó.

Látið malla í 10 mínútur.

Þar sem á mínu heimili er ekki vilji til að borða súpur með grænmetisbitum, þá mauka ég súpuna niður.

Því næst bæti ég við rjómaostinum og kjúklingnum.

Berið fram í skálar og hver og einn bætir við rifnum osti og sýrðum rjóma eftir smekk.

Jarðarberja ostakaka:

Botn:

60 g mjúkt smjör

2 msk. mjúkt hnetusmjör

30 g Sukrin Gold (púðursykur ef þið eruð ekki að forðast sykur)

3 msk. Fibersirup Gold (dökkt síróp ef þið eruð ekki að forðast sykur)

80 g möndlumjöl

 

Blandið öllu nema smjöri vel saman.

Smjör brætt og bætt við.

Þjappið niður í springform, 22-24 sm að stærð.

Bakið á 180 gráðum í um 5-7 mínútur.

Kælið botninn áður en fylling er sett yfir.

 

Fylling:

200 g rjómaostur

180 g Grísk jógúrt

3 dl frosin jarðarber 

(var með kúfað í dl málinu)

3 dl þeyttur rjómi

2 msk. Sukrin Melis (flórsykur ef þið eruð ekki að forðast sykur)

 

Rjómaosti, Grískri jógúrt og Sukrin Melis hrært vel saman.

Þegar jarðarberin voru aðeins farin að þiðna maukaði ég þau með töfrasprota og blandaði svo við.

Í lokin er þeyttur rjómi blandaður varlega við.

Setjið fyllingu yfir botninn og setjið svo kökuna í frystinn í um 3 klukkustundir.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!