Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Jógúrtsnakk og hollur súkkulaðiís úr grískri jógúrt
31. ágúst 2015

Jógúrtsnakk og hollur súkkulaðiís úr grískri jógúrt

Nú styttist í að sumarið hverfi, þó að það hafi ákveðið að vera hjá okkur fyrstu skólavikuna. Allir eru komnir í sína rútinu og við njótum þess að vera saman. Um helgar er ekkert betra en að geta gætt sér á einhverju góðu með krökkunum. Grísk jógúrt er aðalhráefnið í uppskriftunum hjá mér að þessu sinni og er ofur einfalt að útbúa þær.

Jógúrt snakk

Börnunum finnst þetta ótrúlega gott og fínt að eiga þetta snakk í frystinum í bitum og næla sér í nokkra þegar mann langar í.

Þetta er ótrúlega auðveld uppskrift ef hægt er að kalla uppskrift.

 

200 g grísk jógúrt

5-6 stór jarðarber

50 g saxaðar pistasíur

 

Setjið jógúrt í skál og hrærið í því. Saxið jarðarber og pistasíur og blandið við (geymið smá til hliðar). Setjið í form sem má fara í frystinn. Ég notaði silicon brauðform. Smyrjið vel úr jógúrtinni svo hún sé jöfn í forminu. Dreifið svo afganginum af jarðarberjum og hnetum yfir. Setjið plastfilmu yfir jógúrtina og setjið í frystinn í nokkra klukkutíma. Takið úr frystinum og svo úr forminu. Látið þiðna í nokkrar mínútur eða þar til hægt er að skera í bita. Geymið svo í frystinum í boxi.

Hægt er að setja hvaða ber og hnetur sem maður vill og leika sér að uppskriftinni.

 

Súkkulaðiís

Auðveldur og góður súkkulaði jógúrtís.

 

250 g grísk jógúrt

80 ml rjómi

25 g ósykrað kakó

80 g sukrin

 

Setjið rjóma í pott og hitið að líkamshita. Bætið við kakói og sukrin og blandið vel saman. Píksið aðeins til jógúrtina í skál og blandið svo rjómablöndunni smátt og smátt við.

Ef þú átt ísvél er hægt að setja ísinn í vélina eftir leiðbeiningum þar eða gera eins og ég gerði og setja í ísform og í frystinn. Gott að setja ísinn í sprautupoka og sprauta ofan í formin og slá ísformsbakkanum nokkrum sinnum í borðið til að losna við  loftbólur.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!