Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Hollt og gott á nýju ári
09. janúar 2015

Hollt og gott á nýju ári

Gleðilegt nýtt ár! Á nýju ári eru margir búnir að fá leið á súkkulaði, desertum og alls konar konfekti og smákökum. Ég sjálf hef mun minni áhuga á að narta í sætindi en þeim mun meiri áhuga á góðum brauðstöngum, túnfisksalati eða góðum drykkjum.

Í þessari færslu eru þrjár uppskriftir sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér núna sem ég deili með ykkur. Stromboli, túnfisksalat og sesamkex.

 

Stromboli

Hráefni:
1 lítill blómkálshaus
1 egg
50 g rifinn ostur
½ tsk salt
½ tsk þurrkað oregano
pipar eftir smekk

Fylling:

3 msk sykurlaus tómatsósa eða pizzusósa
½ bolli rifinn mozzarella ostur
Skinka, pepperoni, sveppir, paprika eða annað sem ykkur langar í
Rifinn parmesan ostur og oregano eftir smekk

Aðferð:
Rífið blómkálið niður í grjón og setjið í skál og inn í örbylgjuofn í u.þ.b. 8 mínútur eða þar til eldað í gegn. Látið kólna.

Þegar grjónin eru orðin köld þarf að setja þau í hreint viskustykki og kreista vökva sem er í grjónunum úr. Kreistið vel! Útkoman ætti að vera lítil deigkúla.

Setjið deigið í skál ásamt eggi, rifnum osti og kryddum og blandið vel saman.

Smyrjið olíu á bökunarpappír og dreifið deiginu á pappírinn og myndið ferhyrning. Notið fingur til að þjappa niður.

Bakið við 200°C í 10-12 mínútur eða þar til gyllt.

Takið úr ofninum, setjið tómatsóu/pizzasósu, rifinn mozzarellaost og það álegg sem þið viljið og lokið með því að taka hliðarnar báðum megin og leggja þær saman. Gott er að snúa strombolinu við til að halda því lokuðu.

Stráið smá parmesan osti yfir og setjið aftur í ofninn og bakið í aðrar 10-12 mínútur.

Látið kólna örlítið og skerið svo í sneiðar.

----------

Sesamkex

1 egg
1 tsk Dijon sinnep
50 g rifinn ostur
120 g sesamfræ
½ tsk hvítlauksalt
1 msk brætt smjör

Blandið öllum hráefnunum vel saman í skál.

Setjið á bökunarpappír og dreifið vel úr og þjappið niður. Bakið við 160°C í 12-15 mínútur eða þangað til kexið er farið að verða gyllt.

Takið kexið út og snúið því við. Skerið svo í bita með pizzuskera.

Setjið aftur inn í ofn á 100°C í 20-30 mínútur.

Frábært með guacamole, rækjusalati, túnfisksalati eða með ostum.

----------


Túnfisksalat

2 harðsoðin egg
6 msk grísk jógúrt
1 dós túnfiskur í olíu
½ lítill rauðlaukur smátt saxaður
örlítið af sítrónusafa
salt og pipar eftir smekk

Skerið eggin með eggjaskera, bæði langsum og þversum og setjið í skál ásamt öllum hráefnum og blandið vel saman. Saltið og piprið eftir smekk.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!