Hafdís Priscilla Magnúsdóttir
Amerískar pönnukökur
17. febrúar 2016

Amerískar pönnukökur

Mér finnst fátt skemmtilegra en að stússast í eldhúsinu og hafa fjölskylduna með mér. Stofan og eldhúsið er eitt opið rými og reyni ég að tala fjölskylduna til að sitja í stofunni frekar en inn í herbergi eða sjónvarpsholi þegar ég baka. Það tekst alltaf vel að fá börnin til að vera hjá mér og aðstoða þegar ég bý til pönnukökur. Þessar pönnukökur eru vinsælar á heimilinu og bíða börnin spennt eftir að geta fengið sér. Það gengur illa að safna pönnukökunum saman á disk og fá sér þegar deigið er allt búið og allir geta setið saman. Nei, það þarf að fá sér um leið og þær detta af pönnunni. Og það besta finnst þeim að fá sykurlaust síróp yfir.

Amerískar pönnukökur

1 stórt egg eða 2 lítil

4 msk Sýrður rjómi frá Gott í matinn. Ég notaði 18% en 36% virkar líka

60 g haframjöl (ef þú vilt glútenlausar pönnukökur skaltu kaupa glútenlaust haframjöl)

30 g möndlumjöl

1 tsk vínsteinslyftiduft eða lyftiduft

1 msk Sukrin Gold

1 tsk vanilludropar

Rjómi eftir þörfum

 

Myljið haframjölið vel niður með töfrasprota eða í matvinnsluvél þar til verður að fínu dufti.

Blandið öllu saman í skál. Ef deigið er of þykkt bætið við 1-2 msk af rjóma við.

Steikið á pönnu með smjöri á miðlungshita. Gerið litlar pönnukökur, eða stórar (eftir því hvað hentar ykkur).

Berið fram með sykrulausu sírópi (ég nota Fibersirup Gold sem er trefjamikið og hefur lítil sem engin áhrif á blóðsykurinn), þeyttum rjóma og eða berjum.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!