Gígja S. Guðjóns
Rjómapestó kjúklingaréttur og hollara túnfisksalat
05. október 2016

Rjómapestó kjúklingaréttur og hollara túnfisksalat

Það er alltaf klassískt að skella í kjúklingarétt. Kjúklingaréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ef þið skoðið bloggið mitt þá held ég að 50% uppskrifta innihaldi kjúkling. Kjúklingurinn einfaldlega býður upp á svo marga möguleika. Núna í vikunni skellti ég í rjómapestó kjúklingarétt sem var bæði fljótlegur og dásamlega góður.

Uppskriftin dugir fyrir 3-4, en við erum tvö í heimili svo ég nota afganginn til að taka með í vinnuna.

 

Undirbúningur 10 mínútur

Eldun 40 mínútur

Innihald

3 stórar kjúklingabringur

2 stórar kartöflur

brokkolí og blómkál eftir smekk

um 15 stk döðlur

200 g pestó

200 ml matreiðslurjómi

1 poki gratín ostur

olía

salt og pipar

(Næst þegar ég geri réttinn ætla ég að prófa að bæta við skornum kirsuberjatómötum á toppinn)

 

Réttinn bar ég fram með hvítlauksbrauði

 

Aðferð:

Ofninn hitaður í 180°C, undir og yfir hita

Eldfasta formið er smurt með olíu og þunnt skornum kartöflum raðað í mótið, upp kantana og þær penslaðar með olíu, salti og pipar.

Ofan á þær fer brokkolíið, blómkálið, döðlurnar og kjúklingurinn - allt skorið í litla bita

Í skál er matreiðslurjómanum, pestóinu og helmingnum af gratín ostinum blandað saman og hellt yfir kjúklinginn

Rétturinn er settur inn í ofn í 20 mínútur og þá er restin af ostinum bætt ofan á (ég setti hvítlauksbrauðið inn þá) og aftur inn í 20 mínútur, sem sagt 40 mín í heildina.

 

---

Hollara Túnfisksalat

Ég hef þó nokkuð oft skellt í þetta túnfisksalat þegar ég fæ gesti. Fljótlegt og það virðast allir elska það.

2 dósir túnfiskur í vatni

3 harðsoðin egg

hálfur rauðlaukur

púrrulaukur að vild ég notaði hálfan

ein dós 18% sýrður rjomi

3 msk grísk jógúrt

salt og pipar

Öllu blandað saman í skál. Æðislega gott með kexi og snakki

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!