Gígja S. Guðjóns
Mjúkir kanilsnúðar með karamellu og pekanhnetum
18. ágúst 2017

Mjúkir kanilsnúðar með karamellu og pekanhnetum

Ég gerði þessa dásamlegu kanilsnúða sem slógu heldur betur í gegn. Kanilsnúðauppskriftin sjálf er rosalega mjúk og góð en ég hef gert hana nokkrum sinnum með glassúri. Ég prófaði núna að setja karamellusósu og pekanhnetur og það slær glassúrnum við.

Uppskrift fyrir 8-10 manns

Kanilsnúðar:

1 pakki þurrger (sá sem eg notaði var 11 gr)

3/4 bolli mjólk

1/4 bolli sykur

1/4 bolli volgt vatn

1 tsk. vanilludropar

1 egg

1 tsk. salt

1/4 bolli brætt smjör

3 og 1/2 bolli hveiti

1/4 bolli bráðið smjör til að pensla í lokinn

 

Kanil fylling:

100 g mjúkt smör

1 bolli sykur

2 msk. kanill

 

Karamellusósa:

1 bolli púðursykur

4 msk. smjör

1 tsk. vanilludropar

1/2 tsk. salt

1 msk. mjólk

80 g pekanhnetur

 

Ofninn er hitaður í 180 gráður, þegar deigið er tilbúið

 

Aðferð:

Volgt vatnið og þurrger er sett í glas og látið bíða í nokkrar mínútur.

Egg, mjólk, bráðið smjör, salt og sykur er sett í hrærivélina og hrært þar til það hefur blandast vel saman (best að nota krókinn, hnoðarann á hrærivélinni).

Næst fer þurrgersblandan og hveitið út í og hnoðað vel.

Takið deigið úr hrærivélinni, gerið úr því kúlu, penslið með olíu og setið í skál með plastfilmu yfir og látið það standa í um eina og hálfa klst. eða þar til það hefur nánast tvöfaldast.

Þegar deigið er tilbúið er smjörpappír lagður á borðið og hveiti dreift yfir. Deigið er sett ofan á og það flatt út í ferhyrning.

Kanilblandan er nú sett ofan á og dreift vel úr henni og svo er deiginu rúllað upp og skorið í jafna bita.

Í eldfast form fer smjörpappír og kanilsnúðunum er raðað í formið og þeir penslaðir með bræddu smjöri.

Inn í ofn í 25 mínútur eða þar til það er kominn brúnleitur gljái á þá.

Á meðan snúðarnir eru inn í ofni er byrjað á karamellunni. Öll hráefnin nema pekanhneturnar eru sett í pott og látið sjóða við vægan hita í um 5 mínútur, það þarf að hræra vel svo karamellan brenni ekki.

Pekanhneturnar eru skornar í bita og þeim bætt út í og potturinn tekinn af hellunni.

Þegar snúðarnir er komnir út er karamellan sett yfir og þá eru þeir tilbúnir.

Æðislega góðir volgir með ís.
 

Njótið vel kæru lesendur.
Þið getið fylgst frekar með mér á www.gigjas.com og www.facebook.com/gigjas

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!