Gígja S. Guðjóns
Mjúkar súkkulaðibitakökur og Dumle sörur
05. desember 2014

Mjúkar súkkulaðibitakökur og Dumle sörur

Mjúkar súkkulaðibitakökur

Þessar kökur eru aðeins of góðar, alveg mjúkar og bráðna uppi í manni. Kærasti minn sagði að þær væru betri en Subway kökurnar og þá er sko mikið sagt!

Innihald:

150 gr smjör
¾ bolli ljós púðursykur
¼ bolli sykur
1 stórt egg
2 tappar vanilludropar
2 bollar hveiti
¼ bolli vanillu búðingur (duftið)
1 teskeið lyftiduft
hnífsoddur salt
1 poki litaðar perlur (t.d. frá Nóa eða m&m)
1 poki hvítir súkkulaði konsum dropar

Aðferð:

  1. Hrærið saman smjör, sykur, egg og vanilludropa á miklum hraða í um 4 mínútur.
  2. Bætið við hveiti, búðing, lyftidufti og salti og hrærið saman í um 1 mínútu.
  3. Að lokum er perlunum og súkkulaðidropunum bætt við og hrært saman í nokkrar sekúndur.

Bakið við 180 gráður í 11-12 mínútur. Fjarlægið kökurnar varlega af bökunarplötunni með spaða og látið standa í um 10 mínútur.

Kökurnar geymast í viku við stofuhita og 6 mánuði í frysti. Ég setti því helminginn í box og hinn helminginn inni í frysti og tek þær bara út þegar hinar eru að fara klárast.

 

 

Dumle sörur

Að mínu mati koma ekki jól fyrr en ég hef fengið sörur. Í fyrra bakaði ég aðeins öðruvísi sörur en þær eru með dumle kremi sem er alveg hrikalega gott. Læt fylgja uppskrift að þeim:

Botnar:

4 eggjahvítur
300 gr möndlumjöl
250 gr flórsykur
hálf teskeið salt

Aðferð:

Eggjahvítur og salt er stífþeytt og flórsykrinum og möndlumjölinu svo blandað varlega saman við með sleif. Deigið setti ég í sprautupoka, gerði síðan litla hringi á bökunarpappír og bakaði botnana í 10-12 mínútur við 180 gráður. Ég bakaði botnana að kvöldi til og byrjaði svo á kreminu daginn eftir og get alveg mælt með því!

 

Dumle krem: 

12 dumle-karamellur
4 msk volgt síróp
220 gr smjör við stofuhita
4 eggjarauður
1 dl rjómi
60 gr rjómasúkkulaði

Aðferð:

  1. Dumle-karamellurnar eru bræddar í potti með rjómanum og rjómasúkkulaðinu er svo bætt við þegar karamellurnar hafa bráðnað. Það á ekki að sjóða í karamellunni, heldur hafa hana á vægum hita.
  2. Eggjarauðurnar eru stífþeyttar.
  3. Volgu sírópinu bætt út í rauðurnar og þeytt í um 1 mínútu.
  4. Smjörinu bætt við og þeytt.
  5. Að lokum er karamellublandan sett út í og kremið hrært varlega saman.

Eggjarauðrunar, sírópið og smjörið

 

Kremið setti ég í sprautupoka og lagaði svo til með spaða svo að það leggðist yfir alla kökuna. Þegar kremið er komið á er best að setja sörurnar í frysti eða í ísskáp áður en súkkulaðihjúpurinn er settur á.

Hjúpur:

500 gr. suðusúkkulaði

Aðferð:

Súkkulaðið er hitað í skál í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Sörunum er dýft ofan í súkkulaðið og það látið leka aðeins af þeim. Gott er að hafa blautan þvottapoka sér við hlið til að þurrka fingurna á milli svo sörurnar verði ekki kámugar.

Þessar sörur hér að ofan komu úr tvöfaldri uppskrift.

Best finnst mér að borða þær aðeins kaldar, en ég set helming í frysti og hinn helminginn inn í ískáp.

 

Njótið vel!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!