Gígja S. Guðjóns
Mexíkóskt kjúklingalasanja og smákökur með hnetusmjöri og Rolo súkkulaði
20. nóvember 2017

Mexíkóskt kjúklingalasanja og smákökur með hnetusmjöri og Rolo súkkulaði

Mexíkóskt kjúklinga lasanja

Mexíkóskur matur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er algjör sökker fyrir vefjum, takkó, nachosi og þessum klassíska mexíkóska mat. Þegar ég fer erlendis þá næ ég einhvern veginn alltaf að finna mér góða mexíkóska veitingastaði til að smakka, vil hafa þá svo sterka að það leki nánast úr nefinu á mér. Í uppskriftinni sem ég ætla að gefa ykkur er hægt að ráða svolítið sterkleikanum með að hafa meira eða minna af jalapeno og cayenne pipar. Miðað við mína uppskrift myndi ég segja að það væri medium-hot á sterkleikaskalanum ;)

Uppskriftin dugar fyrir 6 fullorðna

Undirbúningur 15 mínútur

Eldun 40 mínútur

Ofninn er hitaður í 180 gráður

Fínt að hækka upp í 200 síðustu 5 mínúturnar til að dekkja ostinn ef hann er ekki orðinn brúnleitur

 

Innihald:

Heill tilbúinn kjúklingur (örugglega gott að nota hakk líka ef þið kjósið það)

200 g gular baunir

200 g nýrnabaunir

Stór dós kotasæla

1 krukka salsasósa (ég notaði Hot)

300 g niðursoðnir tómatar

Jalapeno eftir smekk, ég notaði eins og hálfan bolla

1 laukur

1 msk. cayenne pipar

1 tsk. hvítlaukssalt

2 pokar Pizzaostur frá Gott í matinn

4-6 tortillakökur, fer eftir því hversu stórar þið notið

 

Toppur, eftir að lasanjað kemur út:

18% sýrður rjómi frá Gott í matinn

Ferskur kóríander, graslaukur og avocado.

Aðferð:

Kjúklingurinn er rifinn niður (ég keypti tilbúinn kjúkling í nettó)

Í stóra skál er öllu blandað saman nema það sem fer á toppinn í lokinn.

Blandan fer síðan í stórt eldfast form sitt á hvað með tortilla kökunum og smá osti á milli. Blandan fer fyrst í formið því kökurnar gætu brunnið við það. Síðan er endað á blöndunni og rétturinn settur inn í ofn. Þegar rétturinn hefur verið inni í um 10-15 mínútur er fínt að strá restinni af ostinum yfir.

Borið fram eitt og sér eða með nachos (og ísköldum Corona ef þið viljið fara all in í mexíkóveislunni)

 

Njótið vel :)

 

Smákökur með hnetusmjöri og Rolo súkkulaði

Þessi uppskrift er uppáhalds smáköku uppskriftin mín og hægt er að gera hana með alskonar nammi í staðin fyrir Rolo. Ég hef til dæmis prófað að nota Reeses Peanut Butter Cups, Snickers og M&M og það kemur allt rosalega vel út. Núna prófaði ég að nota Rolo súkkulaði og það er æðislegt, mæli með því að prófa það fyrir jólin :)

Uppskriftin er fljótleg og einföld - gerir um 15 kökur

 

Innihald:

100 g smjör

1 bolli hveiti

2/3 bolli púðursykur

3 msk. hnetusmjör / gróft eða fínt

150 g Rolo (2 og hálf lengja)

1 egg

1/2 tsk. salt

1/2 tsk. lyftidyft

1 tsk. vanilludropar

Ofninn er hitaður í 180 gráður og blástur

 

Aðferð:

Smjörið er brætt í potti.

Næst er smjörinu og púðursykrinum blandað saman og hrært vel.

Eggi og hnetusmjöri er síðan bætt út í og næst restinni af innihaldsefnunum.

Það er fínt að skera Rolo-ið í tvennt eða smærra.

Deigið er sett í skál og inn í ísskáp í klukkustund.

Næst eru mótaðar litlar kúlur, fínt að ýta aðeins niður á kúlurnar með skeið áður en þær fara inn í ofn. Það mun líklega leka aðeins af karamellunni út fyrir kökurnar en það er allt í lagi það er nóg af henni inn í kökunum.

Kökurnar fara í ofninn í 10-12 mínútur og kældar í 10 mínútur áður en þær eru teknar af plötunni.

Njótið vel :)

 

Finnið fleiri uppskriftir eftir mig á like síðunni minni á Facebook. www.facebook.com/gigjas og www.gigjas.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!