Gígja S. Guðjóns
Karamellubollur
08. febrúar 2018

Karamellubollur

Nú er minna en vika í bolludaginn og ekki seinna vænna að skella í fyrsta round af bollum! Bolludagurinn er alltaf i miklu uppáhaldi hjá sælkeranum mér og ég tek alltaf bolluviku í staðinn fyrir bolludag. Í bolluvikunni verð ég komin  38-39 vikur á leið svo ég er orðin svoddan rjómabolla sjálf. Mér finnst rosalega gaman að gera nýjar bollur en ég prófaði að gera þessar karamellubollur sem eru með karamellukremi, karamellukurli og karamellurjóma og þær komu æðislega vel út. Í fyrra gerði ég bananabollur með Dumle kremi og hitt í fyrra gerði ég nutellabollur með jarðarberjarjóma og það er einnig hægt að finna uppskriftirnar af þeim hérna inn á síðunni fyrir ykkur sælkerana. 

Vatnsdeigsbollur uppskrift:

Uppskriftin gerir um 10-12 bollur

Ofninn er hitaður í 180 gráður á blæstri

 

Bollur

80 g smjör

2 dl hveiti

3 egg

2 dl vatn

Salt á hnífsoddi

Rjómi

500 ml rjómi frá Gott í matinn

Karamellu Royal búðingur

1 bolli mjólk

Karamellukrem

50 g smjör

1 dl púðursykur

1 msk. rjómi frá Gott í matinn

Salt á hnífsoddi

3 msk. flórsykur

Karamellukurl á toppinn

 

Vatnsdeigsbollur

Smjör og vatn er sett í pott þar til suðan kemur upp og látið sjóða í um 1 mínútu.

Þá er potturinn tekinn af hellunni og hveitinu og saltinu blandað saman við með sleif.

Blandan er sett í hrærivélina og látin standa í um 5-10 mínútur eða þar til hún hefur kólnað aðeins.

Þá er einu eggi í einu blandað saman við og þeytt á meðan.

Á bökunarplötu fer svo eins og ein matskeið af deigi og inn í ofn í 20-30 mínútur, eftir 20 mínútur er fínt að byrja fylgjast með bollunum og þær eru teknar út þegar þær hafa tekið aðeins lit. Mikilvægt er að opna ekki ofninn fyrir 20 mínuturnar því þá er hætta á að þær falli.

Þegar bollurnar eru komnar í ofninn er fínt að byrja að græja rjómann.

 

Rjómi

Búðingsduftið er sett í skál með 1 bolla af mjólk og inn í ísskáp. Ath að það er ekki sama uppskrift og er á pakkanum.

Rjóminn er þeyttur og þegar búðingurinn hefur verið í 10-15 mínútur inn í ísskáp er honum blandað varlega saman við rjómann.

Þegar bollurnar eru komnar úr ofninum er byrjað á karamellusósunni.

 

Karamellusósa

Öll hráefnin fara saman í pott fyrir utan flórsykurinn.

Suðan er látin koma upp og fínt að láta sjóða í 1 mínútu á meðan hrært er svo karamellan brenni ekki við. Þá er potturinn tekinn af hellunni og 3 msk. af flórsykri bætt út í og hrært.

Karamellan er látin standa örlítið þangað til hún hefur þykknað en þannig að hún leki ennþá. Þá er hún sett á bollurnar og rjóminn á milli.

Ég bar bollurnar fram strax, en þær eru rosalega góðar líka eftir að þær hafa staðið aðeins inn í ísskáp.

 

Þá segi ég bara gleðilegan bolludag. Þó það sé meistaramánuður þá má nú alveg skella í sig nokkrum bollum, það er bara bolludagur einu sinni á ári ;)

 

Ef þið viljið fylgjast með því hvað er nýtt hverju sinni hjá mér þá er like síðan mín á facebook: www.facebook.com/gigjas og heimasíðan www.gigjas.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!