Gígja S. Guðjóns
Hrekkjavöku pylsur og brownies
25. október 2017

Hrekkjavöku pylsur og brownies

Hrekkjavöku Pylsur og Brownies

Nú er halloween eða hrekkjavakan á næsta leiti og sá atburður verður alltaf stærri og stærri hérna á Íslandi. Það er virkilega gaman að sjá að í hverfinu mínu í Keflavík er fólk byrjað að skreyta húsin sín. Hrekkjavakan verður haldin 31. október í hverfinu og krakkar ganga á milli húsa og biðja um grikk eða gott og við munum að sjálfsögðu taka þátt í því.

Ég er viss um að múmíu pylsurnar munu slá í gegn hjá ungu kynslóðinni á hrekkjavökunni en það er rosalega auðvelt að útbúa þær og krakkarnir geta hjálpað til.

Einnig ætla ég að gefa ykkur uppskrift af æðislega góðum og óhugnanlegum brownies sem hægt er að skreyta sem múmíur og drauga. 

Múmíu Pylsur:

Innihald:

Pylsur

Deig. Um 400 gr fyrir 10 pylsur. (Ég notaði tilbúna pizzadeigið sem fæst í Krónunni. Einnig getið þið búið til ykkar eigið deig en ég myndi passa að nota ekki pastry deig þar sem það lyftir sér of mikið)

Smjör eða olía til að pensla deigið

Sósur eftir smekk

 

Aðferð:

Pylsurnar eru skornar eins og sést á myndinni. Einn skurður um hana miðja fyrir fæturna og svo tveir skurðir sitthvoru megin fyrir hendurnar.

  

Deigið er aðeins flett út og skorið í mjóar ræmur með pizzaskera og deigið vafið utan um pylsurnar og penslað með olíu eða smjöri.

Pylsurnar eru næst settar inn 180 gráðu heitan ofn í um 15 mínútur eða þar til að þið sjáið að deigið er orðið aðeins brúnleitt og pylsurnar heitar í gegn.

 

Drauga og Múmíu Brownies:

Innihald:

Einföld uppskrift passar í eins og 20sm x 30sm bökunarmót en tvöföld ætti að vera góð í heila skúffu.

 

150 gr smjör við stofuhita

1 bolli sykur

200 gr brætt suðusúkkulaði

2 tsk. vanilludropar

hálf tsk. salt

1 og hálf msk. bökunarkakó

100 gr lakkrískurl (lakkrísinn er síðan notaður til að búa til augun)

2 egg

2 msk. volgt vatn

1 og hálfur bolli hveiti

Hvítt súkkulaði 300 gr, sykurpúðar og lakkrís til skrauts

 

Aðferð:

Smjör og sykur er þeytt saman í hrærivél þar til það er orðið létt og ljóst.

Þá fara eggin og vanilludroparnir út í, hrært vel og skafað meðfram köntunum.

Næst fer brætt suðusúkkulaðið út í og í framhaldi restin af hráefnunum og hrært varlega.

Bökunarpappír er settur í form og kakan inn í ofn í 175 gráðu heitan ofninn í 40 mínútur eða þangað til það er hægt að stinga í kökuna. Það má koma örlitil kaka með á gaffalinn en ekki deig.

Kakan er kæld í minnst klst. áður en farið er að skera og skreyta hana.

Hvíta súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Fínt að hafa súkkulaðið ekki alveg sjóðandi heitt þegar það er byrjað að skreyta. Fyrir múmíukökurnar er hægt að setja súkkulaðið í poka eða nota skeið, það virkar bæði. Fyrir draugakökurnar er sykurpúðinn settur ofan á og súkkulaðinu hellt yfir með skeið. Til að augun tolli á er fínt að bíða þar til súkkulaðið er aðeins byrjað að stífna og setja þá lakkrísinn inn.

 

 

Happy Halloween :)

 

Fleiri uppskriftir frá mér eru inn á www.facebook.com/gigjas og www.gigjas.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!