Gígja S. Guðjóns
Bragðmikil tómat- og basilsúpa og ostasalat
03. febrúar 2015

Bragðmikil tómat- og basilsúpa og ostasalat

Ég gerði þessa súpu um daginn og ég er búin að vera í einhverju hamingjukasti síðan, hún er svo góð! Súpan er mjög þykk, holl og matarmikil. Uppskriftin sem ég gef ykkur er fyrir tvo en það er auðvelt að stækka hana.

Eldunartími - rúmur klukkutími

Hráefni:

2 dósir hakkaðir tómatar

1/2 dós létt kókosmjólk

miðstærð af lauk

ein rauð paprika

1/3 bolli söxuð basilíka

1 bolli vatn

2 hvítlauksrif

salt, pipar og cayenne pipar eftir smekk

parmesanostur

 

Aðferð:

1. Grænmetið er skorið niður og öll hráefnin (fyrir utan parmesanostinn) eru sett í pott og látin sjóða í 30-40 mínútur.

2. Súpan er sett í blandara þar til hún er orðin silkimjúk og engir stórir kögglar sjáanlegir

3. Súpan er sett í skál og parmesanosti stráð yfir (ekki nauðsynlegt en ég mæli með því, þar sem það er æðislega  gott).Gott er að bera súpuna fram með brauði! 

Njótið vel :) Ég er sko strax byrjuð að hugsa um hvenær ég ætti að hafa hana í matinn næst!

-----

Ostasalat

Eins og ég hef sagt áður þá er ég sjúk í osta og þetta ostasalat er náttúrulega það allra besta!

Ég gerði salatið í gær fyrir saumaklúbb, en mér finnst þetta rosalega sniðug hugmynd í saumaklúbba og veislur, borið fram með góðu kexi.

Innihald:

1 Mexíkóostur

1 Hvítlauksostur

1 dós 18% sýrður rjómi

1 púrrulaukur

1 rauð paprika, lítil

1 græn paprika, lítil

Vínber eftir smekk. (Vínberin verða að vera með að mínu mati og gott er að hafa nóg af þeim :) )

Aðferð:
Allt skorið í litla bita og sýrða rjómanum bætt við að lokum. Ef þið viljið hafa salatið blautara er hægt að bæta smá hreinni jógúrt eða grískri jógúrt við. Ég notaði þó einungis eina 180 g dós af sýrðum rjóma og það var rosalega gott.

Þessi uppskrift dugði fyrir átta svangar stelpur :)

Njótið vel.

 


 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!