Erna Sverrisdóttir
Villtur lax löðrandi í rjóma, sítrónu og hvítvíni og líka í tízku
28. júlí 2013

Villtur lax löðrandi í rjóma, sítrónu og hvítvíni og líka í tízku

Í dag kom sumarið til Reykjavíkur. Undurfagur dagur að baki og villtur lax í kvöldmatinn. Lax á grillið með sítrónu, sýrðum rjóma, steinselju og hvítvíni. Þessi uppskrift hefur fylgt mér og sumrinu í áratug, að mig minnir, svona hér um bil. Sumarréttur.

Í dag valdi ég að hafa sýrðan rjóma með graslauk og lauk í réttinum. Stundum nota ég matreiðslurjóma og oft vel ég einfaldlega rjóma í allri sinni dýrð. Með laxinum hafði ég kúrbít í frekar lekkerum sneiðum (svona eins og mér er unnt) sem var þakinn möndlupestói. Í pestóið setti ég Ísbúa, en ég hef sérstakt dálæti á þeim góða osti. Svo þegar sest var að snæðing með rjóða vanga þá uppgötvað ég að rétturinn í heild sinni fellur algjörlega að lágkolvetnatískunni!

Grillaður lax í álpakka með sítrónu og rjóma

(fyrir 4)

álpappír
800 g laxaflak eða sama magn af silungi, roðflett og beinhreinsað
smjörklípa
sjávarsalt og svartur pipar
safi úr 1 ½ sítrónu
1 box sýrður rjómi með graslauk og lauk eða 1 dl matreiðslurjómi eða 1 dl rjómi
½ dl hvítvín, má sleppa
1 búnt flatblaða steinselja, söxuð
4 sítrónusneiðar

Mér finnst mjög mikilvægt að fiskur sé vel beinhreinsaður.Mörgum finnst það óttalegt pjatt og kannski er það rétt. Hinsvegar missi ég matarlystina þegar ég finn bein vesenast í munninum á mér og ævintýrið fær snöggan endi. Svo að ég tek mér góðan tíma með flísatönginni. Að því loknu ríf ég tvær arkir af álpappír sem eru ívið lengri en fiskflakið. Legg þær saman og smyr með smjörklípu. Legg síðan laxaflakið þar á. Síðan sker ég flakið í fjóra bita, en passa samt að skera ekki í gegn. Myl salt og pipar yfir. Næst hræri ég saman sýrða rjómanum eða rjóma þegar ég nota hann, sítrónusafa og hvítvíni. Þessari góðu blöndu helli ég yfir laxinn og sáldra steinseljunni yfir. Ef þið fáið ekki flatblaða steinselju þá er ekkert að þvi að nota þessa hefðbundnu, krulluðu. Loks set ég sítrónusneiðarnar í raufarnar fjórar. Að lokum loka ég álpappírnum og grilla í 10-12 mínútur.

Kúrbítur með möndlu- og Ísbúapestói

(fyirr 4)

1 ¼  dl hakkaðar möndlur
1 ½ dl Ísbúi, fínrifinn
1 lítið hvítlauksrif
rauðar piparflögur á hnífsoddi og meira ef vill
2 msk sítrónusafi, meira ef þurfa þykir
½ tsk sjávarsalt
örlítill svartur pipar
1 ½ dl ólívuolía, meira ef þurfa þykir
2 stórir kúrbítar

Hér byrja ég á því að setja hökkuðu möndlurnar í matvinnsluvél og dufta þær. Síðan bæti ég ostinum góða, piparflögunum, salti og hvítlauk saman við og mauka. Loks set ég sítrónusafann og óífuolíuna saman við og blanda. Svo smakka ég til með pipar og salti. Oft finnst mér gott að setja meiri sítrónusafa og ólívuolíu. Þetta er auðvitað smekksatriði. Kúrbítinn sker ég niður í frekar þunnar sneiðar. Þetta er best að gera í mandólíni. Það er líka ekkert að því að skera hann niður með ostaskera eða grænmetishnífi. Kúrbítnum blanda ég síðan varlega saman við pestóið. Best er að nota guðsgaflana við gjörninginn.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!