Erna Sverrisdóttir
Umvefjandi að austan
01. maí 2013

Umvefjandi að austan

Umvefjandi að austan

Dagar hafa verið kaldir en bjartir. Á hverju vori kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að sólríkir dagar geti verið svona naprir. Þá er sannarlega tími fyrir vini, samveru og mat sem ber með sér angan og hlýju. Um daginn fékk ég góða vini í mat. Ég gróf upp gamla uppskrift að kjötbollum sem eru ákaflega bragðgóðar og sósan sem þær hvíla í er afar ljúffeng og seðjandi. Í forrétt var ég með ofnbakað eggaldin í fetaostasósu. Sérlega góður grænmetisréttur sem getur auðveldlega verið aðalréttur með flatbrauði eða pítubrauði.

 

Kjötbollur í ljúffengri sósu
500 g nautahakk
1 egg
1/2 dl brauðmylsna
1 1/2 dl matreiðslurjómi
1 msk steinselja, fínsöxuð
1/2  msk garam masala
1/2 msk sjávarsalt
svartur pipar
1/2 l vatn
1 kjúklingateningur eða 1 msk kjúklingakraftur

Sósa:
2 msk olía
1 laukur, fínsaxaður
2 hvítlauksrif, marin
2 msk karrí
1 kanelstöng
1/2 dl rúsínur
2 lárviðarlauf
1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar, án safa
2 1/2 dl matreiðslurjómi
sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk

Meðlæti: sítrónubátar og kúskús/hrísgrjón

Það góða við þessa uppskrift að hana er hægt að gera með góðum fyrirvara og hita svo upp. Ég byrja alltaf á að útbúa sósuna. Fyrst mýki ég laukana góða stund í olíunni og karríinu. Þá set ég kanilstöngina, rúsínur og lárviðarlauf saman við og hræri. Söxuðu tómatarnir fara í sigti og síðan blanda ég þeim varlega saman við hráefnin í pönnupottinum. Loks bæti ég matreiðslurjómanum saman við og hræri. Set lok á pottinn og læt malla á lágum hita í 15 mínútur. Á meðan sósan mallar byrja ég á bollunum. Ég legg brauðmylsnuna í bleyti í matreiðslurjómanum í 5 mínútur og helli svo vökvanum af. Síðan fer allt í skál, nautahakk, brauðmylsnan, eggið, steinseljan og kryddin. Mér finnst best að nota hendurnar til þess að hræra öllu saman. Það ótrúlega gott að finna kjötið á milli handanna! Síðan móta ég bollurnar. Ég miða við eina msk af farsinu og rúlla svo á milli handanna og legg til hliðar. Set að því loknu 1/2 lítra af vatni í pott ásamt kraftinum og þegar suðan kemur upp set ég bollurnar út í, í skömmtum og sýð á vægum hita í u.þ.b. 5 mínútur. Loks veiði ég þær upp úr og set út í ilmandi sósuna. Þegar ég er búin að sjóða allar bollurnar, læt ég þær malla í stutta stund í sósunni. Réttinn bar ég síðan fram með sítrónubátum. Mér finnst í rauninni sítrónusafi góður með öllu, allt bragð verður tærara. Að þessu sinni hafði ég kúskús með en það má alveg eins hafa hrísgrjón. Ég er ekki með neina sérstaka uppskrift að kúskúsi. Ég set þaðí skál, sáldra smá kjúklingakrafti yfir og helli síðan sjóðandi vatni út í. Hlutföllin eru 1 á móti 1, af vatni og kúskúsi. Ég breiði álpappír yfir og læt þetta standa í 3 mínútur eða þar um bil. Hræri í með gaffli. Ég pískaði saman sítrónusafa, ólívuolíu og pínu hunangi og hellti yfir kúskúsið. Setti fínsaxaða rauða papriku, rúsínur, ristaðar möndluflögur, ferskt kóríander og ferska myntu saman við. Saltaði og pipraði. Svona voru herlegheitin borin fram.

 Meðlæti sítrónubátar

Fyrst stillti ég ofinn á 175°. Skar síðan eggaldinið í 2 cm sneiðar. Lagði í sigti og sáldraði sjávarsalti yfir. Þetta lét ég standa í smá stund eða þar til safinn úr eggaldinu fór að að leka. Ég þerraði hverja sneið og steikti þær í hollum á pönnu í ólívuolíu. Raðaði þeim síðan í eldfast mót. Tók svo til við að útbúa þessa dásamlegu fetaostasósu. Sósan ein og sér er góð með ýmsu öðru. Til dæmis er gott að setja hana yfir fisk og baka í ofni, eða hella yfir annað grænmeti og ofnsteikja. Fyrst mýkti ég laukana í olíu á pönnu. Setti þurrkuðu myntuna saman við og hrærði. Síðan lækkaði ég hitann verulega og setti fetaostinn, sýrða rjómann og matreiðslurjómann saman við. Það er best að hræra stöðugt í eða þar til osturinn er bráðinn. Sósuna smakkaði ég til með svörtum pipar. Hellti henni síðan yfir eggaldinsneiðarnar og bakaði í ofninum í 20 mínútur. Sáldraði söxuðum valhnetum og ferskri myntu yfir. Auðvitað fengu gestirnir sítrónubáta með til að kreista yfir. Eins og ég minntist á hér að ofan þá er mjög gott að rista pítubrauð og setja þennan rétt ofan í píturnar ásamt  fersku salati eða setja á flatbrauð.

 

 

Ofnbakað eggaldin í fetaostasósu

2 stk eggaldin
sjávarsalt
ólívuolía 

ostasósa:
1 laukur, finsaxaður
4 hvítlauksrif, marin
1 msk þurrkuð mynta
200 g fetaostakubbur, mulinn
1 dl sýrður rjómi
1 dl matreiðslurjómi
svartur pipar
fersk mynta, eftir smekk
nokkrar valhnetur, saxaðar

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!