Erna Sverrisdóttir
Tveir partýréttir fyrir áramótin
27. desember 2018

Tveir partýréttir fyrir áramótin

Tveir partýréttir fyrir áramótin

Hér koma tveir bragðgóðir og vinsælir partýréttir sem sóma sér vel á gamlárskvöld eða bara í hvaða veislu sem er. Hægt er að útbúa þá daginn áður og er það góður kostur þegar mikið stendur til og í mörg horn að líta í eldhúsinu.

 

Ofnbökuð ostaídýfa með maískorni, beikoni, þistilhjörtum og döðlum

4 dl maískorn, látið renna vel af þeim í sigti

3 dl þistilhjörtu í kryddlegi, söxuð

3 vorlaukar, saxaðir

120 g beikon, saxað og steikt stökkt

3-4 msk. jalapeno í krukku, saxað

2 hvítlauksrif, marin

1 dl saxaðar mjúkar döðlur

2 dl majónes

1 poki gratínostur frá Gott í matinn

2 dl rifinn Óðals Cheddar

 

Hrærið öllum hráefnunum saman nema cheddarostinum.

Setjið ídýfuna í frekar stórt eldfast mót og sáldrið cheddarostinum yfir.

Setjið heimilisplast yfir og geymið í kæli eða bakið strax. Stillið þá ofninn á 180° og bakið í 20-25 mínútur. Réttinn er hægt að gera kláran daginn áður.

Berið fram með góðu brauði, kexi eða snakki, t.d. nachos.

 

Rjómaostarúllur með beikoni og döðlum

100 g beikon, fínsaxað

250 g rjómaostur frá Gott í matinn

125 g fetakubbur frá Gott í matinn

2 msk. saxaður graslaukur

2 ½ dl saxaðar mjúkar döðlur

4 tortillakökur

 

Steikið beikonið stökkt. Leggið til hliðar.

Stappið fetaostinn og hrærið saman við rjómaostinn. Blandið graslauk, döðlum og beikoni saman við.

Smyrjið hverja tortillaköku með maukinu. Rúllið upp og pakkið í heimilisplast. Kælið í minnst klukkutíma eða gerið kvöldið áður. Gott er að taka úr kæli a.m.k. 30 mínútum áður en rúllurnar eru skornar í sneiðar og bornar fram.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!