Erna Sverrisdóttir
Tveir heitir réttir á hlaðborðið eða sem miðnætursnarl á nýju ári
23. desember 2014

Tveir heitir réttir á hlaðborðið eða sem miðnætursnarl á nýju ári

Á aðventunni bauð ég fjölskyldu og vinum til hádegisverðar. Á boðstólnum voru m.a. tveir heitir brauðréttir sem þóttu gómsætir og það góða var að ég gat útbúið þá báða kvöldið áður. Ég þurfti bara að ofnbaka þá rétt áður en gestirnir mættu til veislu. Þá datt mér í hug að það væri tilvalið að gera þá aftur og taka með í boð á gamlárskvöld og draga fram á fyrstu mínútum nýs árs.

Annar rétturinn er með súrdeigsbrauði, spergilkáli, beikoni, lauki, eggjum, osti og matreiðslurjóma. Hinn er með spínati, niðursoðnum þistilhjörtum, fullt af osti, sýrðum rjóma og pínu majónesi. Með honum bar ég fram foccacia-brauð sem ég bakaði en það mætti alveg nota tilbúið snittubrauð í staðinn. Ég læt samt brauðuppskriftina fylgja með, enda góð! Brauðið mætti gera nokkru áður og frysta.

-----

Ofnbakaður brauðréttur með súrdeigsbrauði,
spergilkáli og beikoni

Innihald:

5 beikonsneiðar, gróft saxaðar
1 rauðlaukur, skorinn í þunna strimla
5 dl spergilkál í litlum bitum
5 egg
3 ½  dl matreiðslurjómi
1 tsk þurrkað oregano
½ tsk sjávarsalt
svartur pipar
1 l súrdeigsbrauð, skorið í munnbita
150 g gratínostur

Aðferð:

1. Steikið beikonið þar til stökkt. Takið af pönnunni og leggið á eldhúsblað. Notið fituna sem eftir er á pönnunni til að mýkja laukinn. Látið hann malla á lágum hita undir loki í 15 mínútur. Takið lokið af og látið laukinn eldast áfram í 5 mínútur.
2. Sjóðið spergilkálið í léttsöltu vatni í 3 mínútur. Látið vatnið renna af því.
3. Pískið saman í stórri skál eggjum og matreiðslurjóma. Blandið síðan hinum hráefnum saman við.

Smyrjið eldfast mót með smjöri og hellið brauðblöndunni í mótið. Setjið álpappír yfir og geymið í allt að sólarhring eða bakið strax með álpappírnum við 180° í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af og bakið áfram í 20-30 mínútur.

-----

Ofnbakaður ostaréttur með spínati og þistilhjörtum

Innihald:

200 g rjómaostur
150 g sýrður rjómi
100 g majónes
100 g rifinn mozzarellaostur
120 g gratínostur
⅔ dl matreiðslurjómi eða rjómi
2 dósir niðursoðin þistilhjörtu
7 ½ dl spínat, gróft saxað
4 vorlaukar, saxaðir
2 hvítlauksrif, marin
sjávarsalt og svartur pipar

Aðferð:

1. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma, majónesi og rjóma. Bætið öðrum hráefnum saman við en geymið örlítið af ostinum til að strá yfir réttinn í lokin.
2. Setjið í eldfast mót. Stráið restinni af ostinum yfir. Látið plastfilmu yfir formið og geymið í kæli, eða ofnbakið strax við 180° í 20-30 mínútur. Berið fram með foccacia-brauði eða snittubrauði.-----

Focaccia-brauð

Innihald:

2 ½ dl volgt vatn
2 tsk þurrger
1 tsk sykur
3 msk ólífuolía
hveiti eins og þurfa þykir u.þ.b. 7 dl
½ tsk salt

2 msk ólífuolía
sjávarsalt eftir smekk

Aðferð:

1. Leysið gerið upp í vatninu. Setjið 3 msk af olíu og sykurinn saman við. Hrærið.
2. Bætið hveiti út í smátt og smátt ásamt salti. Hættið að bæta hveiti út í þegar deigið er ekki lengur klístrað og blautt. Hnoðið stutta stund og setjið deigið í olíuborna skál. Breiðið klút yfir og látið hefast á hlýjum stað í klukkutíma.
3. Hnoðið deigið aðeins niður og mótið með höndunum brauðhleif sem er u.þ.b. 35 x 25 cm að stærð. Leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Búið til holur í brauðið með fingrunum og hellið 2 msk af ólífuolíu ofan í þær. Sáldrið sjávarsalti yfir. Látið hefast í 20 mínútur. Bakið í 15 mínútur við 200°.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!