Erna Sverrisdóttir
Tveir fljótlegir jólaeftirréttir fyrir fólk á þönum
16. desember 2015

Tveir fljótlegir jólaeftirréttir fyrir fólk á þönum

Hér koma tveir jólalegir og hraðgerðir eftirréttir. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa stuttan hráefnalista, örfá handtök þarf til að búa þá til og þeir eru ljúffengir og höfða til allra, barna og fullorðinna. Og ekki skemmir útlitið, enda skarta þeir jólalitunum, hvítir og rauðir. Gleðileg jól!

Jarðarberja-jólamús

(fyrir 6)

 

400 g frosin jarðarber

3 dl rjómi

¾ dl flórsykur

1 ½ tsk vanillusykur

 

Skraut:

litlir sykurpúðar eða rifið hvítt súkkulaði, eftir smekk

 

1. Látið jarðarberin þiðna í sigti.

2. Þeytið saman rjóma, flórsykur og vanillusykur. Setjið í frysti í 20 mínútur.

3. Stappið jarðarberin og blandið saman við rjómann. Setjið í glös og skreytið með sykurpúðum eða rifnu hvítu súkkulaði.

 

 

Hvít lakkrís-súkkulaðimús með frosnum hindberjum

(fyrir 6)

 

100 g hvítt súkkulaði, í bitum

4 dl rjómi

1 ½ - 2 tsk lakkrísduft, t.d. turkish pepper, smakkið til

5 dl frosin hindber

3 msk flórsykur

2 ½ msk berjasafi að eigin vali

u.þ.b. 8 piparkökur

 

1. Sjóðið upp 1 ½ dl rjóma. Hellið honum yfir súkkulaðið. Hrærið þar til allt súkkulaðið er bráðnað. Geymið í kæli í a.m.k. 5 tíma eða yfir nótt.

2. Hrærið saman restinni af rjómanum og súkkulaðiblöndunni. Passið að ofþeyta ekki. Blandið lakkrísdufti saman við.

3. Setjið hindberin í plastpoka og berjið með sleif eða kökukefli. Hellið þeim í skál og blandið flórsykri og berjasafa saman við. Látið standa í 5 mínútur.

4. Skiptið rjómablöndunni í glös og myljið  1-2 piparkökur yfir. Setjið síðan berin þar ofan á og berið fram með fleiri heilum piparkökum.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!