Erna Sverrisdóttir
Tvær páskatertur
30. mars 2015

Tvær páskatertur

Hér koma tvær ljúffengar kökur í sparibúningi. Stemningstertur. Önnur er nokkuð vígaleg, enda á þremur hæðum og vel sæt. Hana rakst ég á í sænsku blaði en aðlagaði aðeins að mínum smekk. Hin er mín útgáfa af vinsælli skyrtertu sem margir hafa notið og deilt. Njótið og eigið gleðilega páska!

Þriggja hæða marens með súkkulaðikremi og páskahreiðri

 

Marens:

6 eggjahvítur

3 ½ dl sykur

3 msk kakó

1 tsk hvítvínsedik

 

Súkkulaðikrem:

6 eggjarauður

1 dl sykur

3 msk kakó

2 msk hveiti

3 dl matreiðslurjómi

3 dl rjómi

100 g suðusúkkulaði

1 tsk vanillusykur

 

Hreiður:

2 pokar cadbury smá egg

 

Meðlæti:

létt þeyttur rjómi

 

Aðferð:

1.     Stillið ofninn á 120°C og blástur.

2.     Stífþeytið eggjahvítur. Bætið sykri saman við smátt og smátt og þeytið. Setjið kakó og edik út í og hrærið í 2 mínútur til viðbótar.

3.     Mótið þrjá hringi úr marensinum, sem eru u.þ.b. 20 cm í þvermál á ofnplötur klæddar bökunarpappír. Bakið í klukkutíma. Látið standa í ofninum þar til hann er orðinn kaldur.

4.     Hrærið eggjarauður og sykur saman þar til létt og ljóst. Bætið kakói og hveiti saman við. Hrærið.

5.     Hitið matreiðslurjóma og rjóma saman í potti að suðu. Hellið út í eggjahræruna og hrærið saman. Hellið aftur í pottinn og látið malla á lágum hita. Hrærið stöðugt í þar til kremið sýður og þykknar. Tekur smá stund. Takið þá strax af hellunni og bætið súkkulaði og vanillusykri saman við. Hellið í skál og kælið.

6.     Smyrjið marensbotnana með súkkulaðikreminu og leggið þá saman. Toppið með kremi og smá eggjum. Berið fram með létt þeyttum rjóma.

-----

Páskaskyrterta

 

1 pakki orekexkökur (176 g)

50 g smjör, brætt

500 g vanilluskyr

3 dl rjómi

börkur af 1 límónu eða 1 tsk sítróna

1 matarlímsblað

4 msk vatn

2 msk sykur

3 ástaraldin

 

Aðferð:

1.     Maukið oreokexið í matvinnsluvél og blandið smjöri saman við. Þrýstið niður í form með gaffli. Kælið í a.m.k. 20 mínútur.

2.     Þeytið rjóma. Passið að stífþeyta ekki. Blandið skyrinu og límónuberkinum saman við. Hrærið. Dreifið jafnt yfir botninn. Kælið í 20 mínútur eða setjið í frysti í 10 mínútur.

3.     Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn í 5 mínútur.

4.     Setjið 4 msk af vatni og sykur í pott og hitið saman að suðu. Kreistið vökvann af matarlíminu og setjið það út í sykurblönduna. Hrærið. Bætið kjöti ástaraldinana saman við. Kælið aðeins. Hellið yfir tertuna og kælið í ísskáp í a.m.k. klukkutíma.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!