Erna Sverrisdóttir
Tvær gómsætar ostaídýfur
26. febrúar 2016

Tvær gómsætar ostaídýfur

Undanfarið hef ég verið að leika mér að því að búa til allskonar ostaídýfur. Bræði saman allskyns osta með grænmeti, kryddi og kjöti. Bræddir ostar bregðast manni aldrei. Kannski af því mér er svo oft kalt um þessar mundir og þá langar mig óskaplega í eitthvað gómsætt og seðjandi. Svo hérna koma því tvær góðar ostaídýfur. Það er sniðugt að bjóða upp á þær í „happy hour“ í heimahúsi, í skíðafríinu eða í súmarbústaðnum. Þá er gott að bera dýfurnar fram með t.d. súrdeigsbrauði eða góðu kexi. Eins niðurskornu grænmeti. Það er líka kostur að hægt er að útbúa þær með góðum fyrirvara, þess vegna daginn áður.

 

Ostaídýfa með grilluðum paprikum og beikoni

 

150 g beikon, saxað

1 hvítlauksrif, fínsaxað

rauðar piparflögur, eftir smekk, má sleppa

125 g rjómaostur

1 box smurostur Tex Mex

1 poki gratínostur rifinn

50 g parmesanostur, fínrifinn

1 krukka grillaðar paprikur

svartur pipar

 

1. Stillið ofninn á 180°.

2. Steikið beikonið og hvítlaukinn á pönnu. Setjið rauðu piparflögurnar saman við.

3. Hrærið saman rjómaosti, smurosti, parmesanosti og helmingnum af gratínostinum.

4. Hellið olíunni af paprikunni og saxið þær. Blandið þeim saman við ostana ásamt beikonblöndunni. Piprið.

5. Setjið í eldfast form og sáldrið restinni af gratínostinum yfir. Bakið þar til gullið, u.þ.b. 20-30 mínútur. Látið standa í a.m.k. 15 mínútur áður en borið er fram með brauði, kexi, snakki eða niðurskornu grænmeti.

 

Ostaídýfa með pekanhnetum og beikoni

 

1 box smurostur með Camembert

1 box mascarponeostur

100 g parmesanostur, rifinn

150 g beikon, saxað

2 msk mango chutney eða 2 msk hlynsíróp

100 g pekanhentur, saxaðar

svartur pipar

 

1. Stillið ofninn á 180°.

2. Steikið beikonið. Setjið helminginn af pekanhnetunum saman við. Bætið mango chutney eða hlynsírópi saman við.

3. Hrærið saman smurosti, mascarponeosti og helmingnum af parmesanostinum. Bætið beikonblöndunni saman við. Hrærið og smakkið til með pipar og ef vill hlynsírópi eða mango chutney. Setjið í eldfast form og sáldrið restinni af pekanhnetunum og parmesanostinum yfir.

4. Bakið þar til gullið, u.þ.b. 20-30 mínútur. Látið standa í a.m.k. 15 mínútur áður en borið er fram með brauði eða kexi.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!