Erna Sverrisdóttir
Tortillavefjur með avocado sósu
28. maí 2018

Tortillavefjur með avocado sósu

Matargerðin endurspeglar tíðarfarið eða öfugt? Dagar grills og sumarlegra salata ókomnir þrátt fyrir að mánuðurinn sé maí. Í sárabætur er gott að gæða sér á heitum réttum með bræddum osti. Hér er einn slíkur, afar fljótlegur og fjölskylduvænn. Rétturinn er einnig prýðisgóður partýréttur.

Tortillavefjur með avocado sósu

(fyrir 4)

1 rauðlaukur, fínsaxaður

500 g nautahakk

1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar

1 tsk. reykt paprika

1 tsk. oreganó

Salt og svartur pipar

1 dós sýrður rjómi frá Gott í matinn

8 tortillakökur

3 dl rifinn mozzarella frá Gott í matinn

Ferskur kóríander eftir smekk, má sleppa

 

Avocado sósa:

1 avocado

1 dl grísk jógúrt frá Gott í matinn

½ msk. límónusafi

Salt

 

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn. Bætið hakkinu saman við og brúnið.

Hellið tómötunum yfir og kryddið. Látið malla í um 10 mínútur. Smakkið til með pipar og salti. Setjið til hliðar.

Steikið tortillakökurnar upp úr smá olíu. Smyrjið hverja köku með 1 msk. af sýrðum rjóma og skiptið kjötsósunni niður á kökurnar. Rúllið þeim upp og raðið í smjörborið eldfast mót. Smyrjið kökurnar með restinni af sýrða rjómanum og sáldrið ostinum yfir. Bakið við 200° þar til gullið. Dreifið kóríander yfir og berið fram með avocado sósunni.

Setjið fyrstu þrjú hráefnin sem eiga að fara í avocado sósuna í blandara eða maukið með töfrasprota. Eins má stappa avocadoið og hræra síðan saman við restina. Smakkið til með salti.

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!