Erna Sverrisdóttir
Tímamót og nasl eftir miðnætti
27. desember 2012

Tímamót og nasl eftir miðnætti

Gleðimatur á nýársnótt þarf ekki að vera flókinn. Best er að geta útbúið hann með góðum fyrirvara og geta síðan dregið fram þegar gestir og gangandi kíkja inn á splunkunýju ári. Sjálf á ég tvo klassíska rétti sem mig langar til að deila með ykkur. Með réttunum ber ég yfirleitt fram niðurskorið baguette, stundum ristað og stundum ekki. Í stað þess að eyða tímanum í að útbúa snittur í tugatali sem verða þreyttar og sjúskaðar er líða tekur á nóttina legg ég það á gestina mína að útbúa sína eigin snittu af allsnægtarfati.

                                                                  Allt til reiðu

Þistilhjartamauk

3 msk sýrður rjómi 18%
1 dós niðursoðin þistilhjörtu í vatni
1 hvítlauksrif, marið
3 dl gratínostur og meira til að sáldra yfir
1 msk. fersk steinselja, söxuð


Þetta er auðveldast í heimi. Fyrst helli ég öllum vökvanum af þistilhjörtunum, síðan mauka ég allt hráefnið saman nema steinseljuna með töfraprota. Það má líka skella því í matvinnsluvél. Ef þið finnið ekki þistilhjörtu í vatni þá má alveg nota þistilhjörtu í olíu. Stundum hef ég notað niðursoðinn maís ef ég hef ekki fengið þistilhjörtu og það er líka mjög gott. Síðan set ég maukið í eldfast form og sáldra gratínosti og steinselju yfir. Þetta geymi ég í ísskáp og dreg svo fram þegar ég er búin að átta mig á umskiptunum við áramótin og baka inni í ofni í 20 mínútur við 180°C. Með réttinum ber ég fram niðurskorið baguette, nachosflögur eða ristaðar pítubrauðssneiðar. Það er alveg óhætt útbúa réttinn daginn fyrir gamlársdag.

Hráefnið á leið í töfrasprotann                                            Þistilhjartamaukið tilbúið í ísskápinnÞistilhjartamauk tilbúið og nýtt ár líka

 

Fetaplatti
2 tsk rifinn appelsínubörkur
1 msk ferskt oregano, saxað
200 g fetakubbur, mulinn
hráskinka, eftir smekk, bökuð eða ekki, fer eftir smekk
1 poki klettasalat
2 msk ólífuolía
smá svartur pipar
50 g hakkaðar möndlur
2 tsk smjör
1 msk hlynsíróp
½ dl þurrkuð trönuber, söxuð


Ef mig langar að hafa hráskinkuna bakaða þá geri ég það fyrr um daginn. Sting henni inn í ofn við 200°C og baka hana stökka. Eftir það set ég smjör á pönnu og rista möndlurnar í smjörinu í stutta stund. Síðan bæti ég 1 msk af hlynsírópi út á pönnuna og hræri í stutta stund. Set svo á bökunarpappír og geymi þar til um kvöldið. Önnur hráefni hef ég til reiðu. Raða síðan á platta á réttum tímapunkti. Fyrst set ég klettasalat á fatið. Síðan blanda ég saman í skál appelsínuberki, oregano, pipar, fetaosti og ólíFuolíu. Þetta mætti líka gera fyrr um daginn. Dreifið því síðan yfir bakkann ásamt hráskinkunni. Það mætti líka alveg eins skipta út hráskinkunni fyrir magurt beikon. Loks toppa ég með möndlunum og trönuberjunum. Þetta er borið fram með ristuðum eða óristuðum baguettesneiðum. Verði ykkur að góðu og gleðilegt ár.

    

                               Dásamlegir litir, fetaostur, appelsínubörkur og oregano

                                                          Fetaplattinn, jólalegur!
 

 

Skál fyrir gömlu og nýju!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!