Erna Sverrisdóttir
Þrír sumarlegir smáréttir
09. júní 2017

Þrír sumarlegir smáréttir

Þrír smáréttir í garðinn, sumarbústaðinn eða á svalirnar

Full af bjartsýni í fallegri snemmsumars birtunni set ég hér inn þrjár uppskriftir að stemningsréttum sem haldast í hendur við fyrirheit komandi tíðar.

 

Tortillasnittur með hráskinku, appelsínusalsa og fetaosti

(12 stk.)

 

1 appelsína

½ tsk. fínsaxaður skallottulaukur eða rauðlaukur

½ dl grænar steinlausar ólífur, saxaðar

½ msk. ólífuolía

½ tsk. sérríedik eða rauðvínsedik

sjávarsalt og svartur pipar

2 tortillakökur

6 hráskinkusneiðar, hverri skipt í tvennt

hreinn rjómaostur til matgargerðar frá Gott í matinn eða annar rjómaostur með bragði, eftir smekk

fetaostur eftir smekk, mulinn

 

1. Raspið smá börk af appelsínunni og setjið til hliðar. Skerið síðan börkinn af og hreinsið í burtu hvíta lagið. Skerið appelsínuna í smáa bita og setjið í skál. Setjið ólífur, lauk, olíu og edik saman við. Smakkið til með salti og pipar.

2. Ristið tortillakökurnar upp úr smá olíu á pönnu. Skiptið hverri köku í sex bita.

3. Smyrjið hvern bita ríflega með rjómaosti. Setjið ½ hráskinkusneið ofan á, þá vel af appelsínusalsa. Toppið með fetaosti og appelsínuberki. Gott er að mylja svartan pipar yfir.

 

Fylltir tortillabátar með tvennskonar osti

(12 stk. eða 24 upprúllaðir tortilla munnbitar)

 

1 Mexíkóostur, rifinn

2 dl rifinn cheddarostur

1 dl majónes

3 msk. ferskt, saxaður kóríander

1 dós niðursoðnar svartar baunir eða sama magn af maísbaunum

1 skallottulaukur, fínsaxaður

½ tsk. cumin

½ tsk. kóríander

sjávarsalt

12 litlir tortillubátar eða 8 tortillakökur

sýrður rjómi og salsasósa

 

1. Stillið ofninn á 180°.

2. Látið baunirnar í sigti, látið renna af þeim og skolið.

3. Blandið saman fyrstu átta hráefnunum. Smakkið til með salti. Skiptið maukinu niður á tortillabátana og sáldrið örlitum cheddarosti yfir. Bakið þar til osturinn er brúnaður og maukið er heitt í gegn. Ef þið notið tortillakökur þá skiptið þið maukinu niður á þær og rúllið upp. Skerið hverja köku í þrjá bita. Raðið þeim í eldfast mót, þannig að endarnir snúi upp. Sáldrið cheddarosti yfir og bakið. Berið fram með sýrðum rjóma og salsasósu.

 

Rjómaostaídýfa fyrir ber og ávexti

 

1 dl rjómi

250 g hreinn rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn eða sama magn af íslenskum mascarponeosti, mjúkur

½ dl flórsykur

smakkast til með líkjör að eigin vali, nutella, vanillu, appelsínusafa eða karamellusósu

pekanhnetur eða furuhnetur, má sleppa

ber og niðurskornir ávextir

 

1. Þeytið rjómann. Blandið osti og flórsykri saman við. Hrærið. Smakkið til með þeim bragðefnum sem ykkur hugnast. Setjið i skál og sáldrið hnetum yfir. Berið fram með berjum og/eða niðurskornum ávöxtum.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!