Erna Sverrisdóttir
Sumaruppskeran - Ofnbakað pasta með blómkáli og beikoni og bláberjakaka í einum grænum
05. september 2016

Sumaruppskeran - Ofnbakað pasta með blómkáli og beikoni og bláberjakaka í einum grænum

Hún er falleg uppskeran á þessum síðsumarsdögum. Brakandi fersk. Þar af leiðir koma hér tveir ljúffengir réttir sem kallast á við árstíðina. Annar ósætur með blómkáli og hinn sætur með bláberjum. Það hefur sést til margra bograndi í bláum berjabreiðum. Við fjölskyldan ekki undanskilin, gengum til berja í Borgarfirði og komum klifjuð til baka. Um kvöldið áttum við von á gestum og tíminn naumur eins og svo oft áður. Þá var fljótlegt og gott að geta boðið upp á þess góðu rétti. Og allir fóru sælir frá borði í ágúströkkrinu. Ég segi það satt það tekur innan við 5 mínútur að gera kökuna!

 

Ofnbakað pasta með blómkáli og beikoni

(fyrir 6)

 

5 dl súrdeigsbrauð, skorið í teninga

200 g beikon, fínsaxað

2 msk hvítlauksolía eða ólífuolía

500 g pasta, t.d. Penne, slaufur eða skrúfur

1 kg blómkál, skorið í litla vendi

3 dl rifinn cheddarostur og smá auka

2 dósir sýrður rjómi 36%

sjávarsalt og svartur pipar

ferskar timiangreinar, má sleppa

1. Stillið ofninn á 180°.

2. Blandið brauðteningum, olíu og beikoni saman í skál. Kryddið með svörtum pipar. Hrærið varlega saman.

3. Setjið pastað í sjóðandi saltvatn og sjóðið í 6 mínútur. Bætið þá blómkálinu saman við vatnið og látið malla áfram í 2 mínútur. Takið 3 ½ dl af vatninu frá og geymið. Hellið pastanu og blómkálinu í sigti og látið renna vel af því.

4. Hrærið saman í pottinum vatninu sem þið tókuð frá, sýrða rjómanum og ostinum. Smakkið til með salti. Blandið pastanu og blómkálinu varlega saman. Hellið í smjörsmurt eldfast form og sáldrið beikon-brauðblöndunni yfir ásamt smá auka cheddarosti og timian ef vill. Bakið í 15-20 mínútur. Gott er að láta réttinn standa í 10 mínútur áður en hann er borinn fram.

 

Bláberjakaka í einum grænum

(fyrir 6)

 

3 egg

3 msk sykur

2 dl hveiti

2 dl matreiðslurjómi

1 tsk vanilla

sjávarsalt á hnífsoddi

20 g smjör

150 g bláber, fersk eða frosin

flórsykur

 

Meðlæti:

léttþeyttur rjómi, ís eða grísk jógúrt

1. Stillið ofninn á 200°.

2. Hrærið saman með píski fyrstu sex hráefnin. Geymið.

3. Setjið smjörið í bökunarform sem er u.þ.b. 22-24 cm í þvermál. Stingið því inn í heitan ofninn og eldið í tæpar 5 mínútur. Takið út úr ofninum og hellið deigiblöndunni strax ofan í formið. Sáldrið bláberjum yfir. Bakið í u.þ.b. 15 mínútur. Sáldrið vel af flórsykri yfir og berið strax fram með rjóma, ís eða grískri jógúrt.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!