Erna Sverrisdóttir
Sumarlegir laxabögglar, á tvenna vegu með kókosflatbrauði
04. júlí 2017

Sumarlegir laxabögglar, á tvenna vegu með kókosflatbrauði

Mér áskotnaðist dásamlegur villtur lax um daginn og hér má sjá hvað úr varð. Einhverskonar tvistur við skandinavíska smörrebrödið! Ég kaus að hafa ljúffengt kókosflatbrauð með en það má líka sleppa því og sjóða hrísgrjón í staðinn. Eða bara rista brauð eða kaupa tilbúið naanbrauð. Eins mætti skipta laxinum út fyrir silung.


Kókosflatbrauð

3 ½ dl hveiti
1 msk kókosmjöl
½ tsk sjávarsalt
1 ¼ dl sjóðandi vatn
⅔ dl olía

1. Setjið fyrstu þrjú hráefnin í skál og blandið saman. Búið til holu í miðjunni og hellið olíu og vatni ofan í. Hrærið saman og hnoðið. Bætið við hveiti ef þurfa þykir, þar til þið fáið mjúkt og óklístrað deig.
2. Skiptið deiginu í fjóra hluta. Fletjið hvern hluta út í 20 cm kökur. Þurrsteikið á pönnu, u.þ.b. 1 mínútu hvora hlið.


Laxabögglar með piparrótarrjómasósu, kapers, graslauk og rúgbrauðsmylsnu
(fyirr 4)

800 g laxaflak, roðflett og skorið í átta bita
8 bútar af bökunarpappír
2 ½ dl rjómi
4 msk tilbúið piparrótarmauk
Sjávarsalt og svartur pipar
Kapers, eftir smekk
Saxaður graslaukur, eftir smekk
200 g rúgbrauð
2 hvítlauksrif, marin
2 msk ólívuolía

1. Byrjið á að útbúa rúgbrauðsmylsnuna. Setjið rúgbrauð í matvinnsluvél og hakkið. Hrærið mylsnunni saman við 2 msk ólívuolíu og hvítlaukinn. Saltið aðeins og piprið. Setjið á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið í ofni í 5 mínútur við 200°. Setjið til hliðar.
2. Hrærið saman rjóma og piparrótarmauki. Saltið og piprið.
3. Leggið laxabitana á bökunarpappír. Setjið tæplega 2 msk af sósunni yfir hvern bita. Lokið síðan vandlega svo úr verði bögglar. Bakið í 10 mínútur við 200°.
4. Sáldrið graslauk, kapers og rúgbrauðsmylsnu yfir og berið fram með kókosflatbrauði, auka sósu, sítrónu og svörtum pipar.

 

 


Laxabögglar með rjómaharrisasósu, ólívum og kóríander
(fyrir 4)

800 g laxaflak, roðflett og skorið í átta bita
2 ½ dl rjómi
4 tsk harissamauk
Sjávarsalt og svartur pipar
Saxaðar ólívur, eftir smekk
Saxað kóríander, eftir smekk

1. Hrærið saman rjóma og harissamauki. Smakkið til með salti og svörtum pipar.
2. Leggið laxabitana á bökunarpappír. Setjið tæplega 2 msk af sósunni yfir hvern bita. Lokið síðan vandlega svo úr verði bögglar. Bakið í 10 mínútur við 200°.
3. Sáldrið ólívum og kóríander yfir og berið fram með kókosflatbrauði og auka sósu.

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!