Erna Sverrisdóttir
Stundargleði (Happy hour) heima
19. október 2012

Stundargleði (Happy hour) heima

Mér þykir óhemju gaman að útbúa smárétti og nasla í í góðum félagsskap yfir ljúfu vínglasi. Oftar en ekki verður til eitthvað ostatengt, enda ekki skrítið þar sem ostar, veisla og vín fara svo vel saman. Fimmtudagar hafa reynst mér og mínum drjúgir fyrir slíkar samkomur. Í rigningunni um daginn fékk ég til mín fjórar vinkonur eftir vinnu. Sjálf hef ég einmitt  lausa stund á þessum góða degi til að dunda mér í eldhúsinu og það finnst mér ekki leiðinlegt. Ég ætla ekki að skrifa um dásemdir eldamennskunnar, enda óþarfi og margtuggin klisja. Svo hér á eftir eru uppskriftir frá þessum góða degi. Ég bauð upp á heimabakað ostasnakk eða ostakex sem borið var fram með bökuðum fetakubbi í kryddlegi. Fetakubburinn er líka mjög góður í kryddleginum, óbakaður, á ostakex, á brauð, pizzur eða í salöt. Ég hvet ykkur til að prófa. Það er líka sniðugt að gera stóra uppskrift af ostasnakkinu því það geymist vel í loftþéttum umbúðum í nokkra daga. Ég vil alltaf hafa kappnóg, svo með þessu bar ég líka fram snittur, heitar og kaldar með gráðaosti, perum og balsamikgljáa. Verði ykkur að góðu!


Örþunnt ostasnakk
1 ¼ dl heilhveiti
1 ¼ dl hveiti, helst prótínríkt
20 g smjör, skorið í örsmáa teninga
½ tsk sjávarsalt
cayennepipar á hnífsoddi
1 lítið egg
⅔ dl sýrður rjómi með hvítlauk eða sýrður rjómi með graslauk og lauk
5 msk pizzaostur

Mitt fyrsta verk var að kveikja á ofninum og stilla á 180° C. Ofninn minn hefur reynst mér vel í gegnum tíðina og margt góðgætið bakað, steikt og grillað. Held samt að það sé komið að leiðarlokum hjá okkur því það tekur hann óhemju langan tíma að hitna.

Mér finnst þægilegast að gera þessa uppskrift í hrærivél en það er ekkert að því að skella öllu í skál eða setja öll hráefnin á borðplötuna. Ég byrjaði á að hræra saman heilhveitið og hveitið með smjöri, salti og cayennepipar. Síðan setti ég eggið, sýrða rjómann og ostinn saman við og hrærði örstutt. Stundum þarf að bæta örlitlu hveiti saman við ef deigið er of blautt. Þennan daginn valdi ég að nota sýrðan rjóma með hvítlauk. Engin sérstök ástæða, það vildi bara þannig til að ég átti hvítlaukstegundina til. Deigið mitt þurfti smá hveiti og eftir það gat ég mótað huggulega kúlu úr því á borðplötunni. Ég bjó til langa rúllu úr deiginu og skar í tuttugu bita. Þá handlangaði sonur minn kökukeflið og saman flöttum við bitana tuttugu í örþunnar ræmur, sem bökuðust þar til gullnar.


Feta í kryddlegi - bakaður eða ekki
⅔ dl ólífuolía
¼ tsk þurrkaðar chiliflögur
2 msk ferskt oreganó
2 msk rauðvínsedik
½ msk sítrónubörkur, fínrifinn
svartur pipar eftir smekk
1 fetakubbur

Að útbúa þennan rétt er nánast eitt handtak. Fyrst var ofnræfillinn stilltur á 200° C. Síðan hrærði ég fyrstu sex hráefnunum saman og pipraði eftir smekk. Lagði fetakubbinn í eldfast mót og hellti kryddleginum yfir. Ostinn bakaði ég í fmmtán mínútur eða svo. Munið að osturinn er líka mjög góður kaldur.Snittur með gráðaosti, perum og balsamikgljáa - bakaðar eða ekki
1 baguette
1 stór pera, skorin í þunnar sneiðar
gráðaostur eftir smekk
1 dl púðursykur
1 dl balsamikedik

Ofninn var á góðu róli eftir ostinn svo mér var ekkert að vanbúnaði. Ég sauð balsamikedik og púðursykur saman þar til það varð sírópskennt. Hér mætti líka stytta sér leið og nota tilbúið balsamiksíróp. Næsta skref var að skera brauðið í sneiðar. Ég grillaði helminginn af brauðinu en penslaði það áður með smá ólífuolíu. Allar sneiðarnar fengu ofan á sig perusneið og u.þ.b. ½ tsk af gráðaosti en magnið fer auðvitað eftir smekk. Ofan á ostinn og peruna setti ég loks balsamikgljáann. Þar ræðst líka magnið af smekk. Annars hugsa ég að ¼ - ½ tsk hafi farið á hverja snittu. Helmingurinn (ógrillaða brauðið) fór síðan inn í ofn þar til osturinn var vel bráðinn.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!