Erna Sverrisdóttir
Sterk og seðjandi mexíkósk kjúklingsúpa, ofnbakaðar tortillur með salsa og dýrðleg pekankaramellustykki
04. maí 2015

Sterk og seðjandi mexíkósk kjúklingsúpa, ofnbakaðar tortillur með salsa og dýrðleg pekankaramellustykki

Mínir dagar hafa verið bjartir en kaldir. Oftast helst matarvalið í hendur við veðrið og lífstaktinn. Svo að þessu sinni er það afar góð og matarmikil súpa, litrík og sterk, með ýmsu grænmeti, kryddum og kjöti. Með henni bar ég fram ofnbakaðar tortillur með salsa, sem gott var að dýfa í heita súpuna. Og loks dásamlegir pekankaramellubitar, óttalega sætir auðvitað en stundum er það bara þannig. Með þeim hafði ég léttþeyttan rjóma og bústin bláber.

Sterk og seðjandi mexíkósk kjúklingasúpa og tortillur með salsa

(fyrir 4)

 

5 beikonsneiðar, skornar í bita

300 g kjúklingabringa, skorin í munnbita

sjávarsalt og svartur pipar

1 rauð paprika, skorin í bita

1 lítill rauðlaukur, skorinn í bita

1 jalapeno eða 1 grænt chili, fræhreinsað og fínsaxað

2 hvítlauksrif, fínsöxuð

7 1/2 dl vatn og 1 1/2 kjúklingakraftsteningur

1 sæt kartafla, skorin í munnbita

2 1/2 dl maísbaunir

2 dl rjómi

1 lárviðarlauf

1/4 tsk cayennepipar

4 msk kóríander, fínsaxað

 

Meðlæti:

tortillur með salsa, sjá uppskrift

sýrður rjómi í brúsa, eftir smekk

límónusneiðar

rifinn mozzarellaostur í poka, eftir smekk

 

Aðferð:

1. Steikið beikonið í potti. Leggið til hliðar á eldhúsblað. Saltið og piprið kjúklingabitana og brúnið í sama potti. Setjið til hliðar.

2. Steikið papriku og rauðlauk í stutta stund. Látið jalapeno/chili og hvítlauk saman við og steikið í 1 mínútu.

3. Setjið vatn og teninga saman við sem og kartöflubita. Látið malla á vægum hita undir loki í 10 mínútur. Gott að hræra í af og til.

4. Bætið þá út í kjúklingabitum, maísbaunum, rjóma, lárviðarlaufi, cayennepipar og kóríander. Látið malla í 15 mínútur. Hendið þá lárviðarlaufinu.

5. Hellið súpunni í skálar. Berið fram með sýrðum rjóma, beikoni, rifnum osti, límónusneiðum og tortillum.

 

 

Tortillur með salsa

(fyrir 4)

 

2 tortillakökur

2 tómatar, kjarnhreinsaðir og saxaðir

2 vorlaukar, fínsaxaðir

2 msk kóríander, fínsaxað

1 1/2 dl rifinn mozzarellostur í poka

 

Aðferð:

1. Stillið ofninn á 200° og skerið hvora tortillu í 6-8 sneiðar.

2. Blandið saman í skál tómötum, kóríander og vorlauk.

3. Leggið tortillasneiðarnar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Sáldrið osti yfir þær og dreifið salsanu jafnt yfir. Bakið þar til osturinn er bráðinn og gullinn.

 

Pekankaramellustykki

 

Botn:

200 g smjör, kalt og skorið í smáa teninga

5 dl hveiti

1 1/4 dl púðursykur

2 tsk kanill

1/2 tsk salt

60 g dökkt súkkulaði, saxað

 

Pekankaramella:

280 g pekanhnetur, saxaðar eða hakkaðar í matvinnsluvél

125 g smjör

2 1/2 dl púðursykur

4 1/2 msk hunang

2 msk rjómi

1/2 tsk salt

 

Meðlæti:

léttþeyttur rjómi

bláber

 

1. Stillið ofninn á 180°.

2. Hnoðið öllu saman sem á að fara í botninn nema dökka súkkulaðinu. Þrýstið deiginu niður í ferkantað form sem er u.þ.b. 25x25 cm. Bakið í 20-25 mínútur. Sáldrið þá súkkulaðinu yfir og leggið til hliðar.

3. Bræðið saman á pönnu smjör, púðursykur, hunang, salt og rjóma. Látið sjóða í 1 mínútu. Setjið þá pekanhneturnar saman við. Hellið karamellunni yfir botninn og bakið áfram í 15-18 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg áður en skorið er í bita. Gott eitt og sér eða með létt þeyttum rjóma og berjum.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!